144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil spyrja forseta hvað það var á fundi hv. atvinnuveganefndar í morgun sem varð til þess að forseti ákvað að halda ótrauður áfram með sömu dagskrá og hefur verið í hálfan mánuð í þinginu. Hvað var það sem kom fram á þessum fundi sem varð til þess að forseti er staðfastur í því að halda áfram þessu máli í þinginu?

Hér hafa menn sem sátu fundinn sagt að þar hafi einmitt verið staðfest að það eigi að bíða, að öll rök hnígi að því að styðja þingsályktunartillögu ráðherrans, sem tekin var eftir faglegt mat og samkvæmt tillögu verkefnisstjórnar, en hafna breytingartillögum atvinnuveganefndar. Það er að minnsta kosti hægt að sættast á ferlið sem þar var farið.

Ég vonast til að (Forseti hringir.) forseti svari því hvað það var á þessum fundi sem rökstyður að halda áfram þessum dagskrárlið hérna.