144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:17]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur náttúrlega komið skýrt fram þegar menn eru að gagnrýna okkur fyrir að ræða fundarstjórn forseta að það er akkúrat fundarstjórn forseta sem við erum að ræða og af hverju þetta mál er á dagskrá. Eftir því sem mér heyrðist af fundi í atvinnuveganefnd í morgun þá kom í ljós að eitt af því sem mundi geta hjálpað verulega til, og hefur líka komið fram í umræðu í þinginu, m.a. frá fulltrúum úr hv. atvinnuveganefnd, væri að nýta það sem er þegar í pípunum af orku og koma línulögnum um landið. Málið á eftir rammaáætluninni eru línulagnir, mál sem var rekið til baka úr þessum þingsal til endurbóta en er komið inn aftur í miklu meiri sátt og meiri möguleikar á því að afgreiða það. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa flutt tillögu um að með því að taka rammaáætlun út þá komist þetta mál á dagskrá.

Það er enginn áhugi á því að koma hér áfram orkumálum eða raforku um landið. Verið ekki að reyna að fela það, þið eruð búin að tefja þetta mál í tvö ár. Þið hafið engan áhuga á að ljúka því hvernig eigi að leggja línulagnir. (Forseti hringir.) Þetta er allt saman tilbúið. Það er einhver annar leikur sem menn eru hér í.