144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:18]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni. Það hlýtur eitthvað annað að búa að baki þegar staðreyndin er sú að Hvammsvirkjun hefði getað verið samþykkt hér í desember sl. og eftir níu mánuði munu faghóparnir skila til verkefnisstjórnar rannsóknum sínum og skoðunum á tæplega 30 kostum sem síðan verða flokkaðir í framhaldinu og skilað inn til þingsins að hausti 2016.

Virðulegi forseti. Ég skil ekki þennan leiðangur og ég skil ekki skeytasendingar formanns atvinnuveganefndar í fjölmiðlum undanfarið þar sem hann lýsir algeru frati á stjórnarandstöðuna og okkar málflutning sem þýðir með öðrum orðum: Ég vil ekkert við ykkur tala, ég þarf ekki að tala við ykkur og ætla ekki að reyna að mæta ykkar sjónarmiðum í einu eða neinu.

Ég spyr mig, virðulegur forseti: Hag hvers ber hv. þm. Jón Gunnarsson fyrir brjósti þegar hann talar svona og þegar hann vinnur með þeim hætti sem hann gerir hér? Ekki er hann að vinna fyrir náttúruna og ekki er hann að vinna framgangi orkuiðnaðarins neitt gagn (Forseti hringir.) heldur. Þetta tefur allt. Þetta tefur friðlýsingarferlið og þetta tefur líka framkvæmdir.