144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:19]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það ástand sem hæstv. forseti Alþingis hefur skapað í þingsalnum með ákvörðunum sínum er slíkt ófremdarástand að það smyrst eiginlega á alla þingmenn. Allir eru taldir einhvern veginn jafn sekir í þessari deilu. Það gerist þegar ómeðhöndluð deila er einfaldlega sett inn í þingsalinn og síðan er dyrunum einfaldlega lokað. Á ekki að tala við neinn og reyna að leita sátta?

Ég held að ef á að reyna að skilja þessa þvermóðsku og þessa stífni þá sé þetta kannski til þess gert að breiða yfir þá staðreynd að það bíða alveg ótrúlega fá mál afgreiðslu frá ríkisstjórninni. Þau eru bara 22 sem eru komin úr nefndum og bíða núna eftir því að komast í 2. umr. (Gripið fram í.) Fá þeirra eru merkileg, þetta eru allt smámál. 46 eru enn í nefndum, (Forseti hringir.) þau eru ekki einu sinni komin með nefndarálit. Það er ekkert að gerast hjá ríkisstjórninni nema þetta mál sem er alger óþarfi. Á sama tíma ríkir þetta ástand í samfélaginu. (Forseti hringir.) Þá er kannski heppilegt að setja einhverja deilu af stað hér til að hylma yfir það að aðgerðaleysið gagnvart því ástandi er algert af hálfu ríkisstjórnarinnar.