144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það væri áhugavert að vita hvað væri hér á dagskrá ef ekki væri fyrir (Gripið fram í.) þetta ólánsmál sem við höfum kallað svo. Ætli það væri ekki bara þinghlé meðan ríkisstjórnin kláraði sín mál? Við höfum margoft spurt hér eftir samgönguáætlun og lesum nú um það í fjölmiðlum að ríkisstjórnin hyggist leggja fram tillögu um mikla aukafjárveitingu, væntanlega til að geta afgreitt samgönguáætlun. Ætli það sé ekki verið að reyna að fylla upp í dagskrána með öðrum aðgerðum?

Frú forseti. Ég verð að ítreka að þær fregnir sem ég hef haft af fundi hv. atvinnuveganefndar stemma við það sem áður hefur komið fram í umræðum, þ.e. það er ekkert sem ýtir á eftir því að við afgreiðum þetta mál núna. Miklu eðlilegra væri að taka alla þessa virkjunarkosti saman þegar heildartillagan liggur fyrir. Það getum við gert haustið 2016, ekki síst vegna þess sem mér skildist líka að hefði komið fram á fundi hv. nefndar, að ekki hefði verið fjármagn til þess að fullskipa faghópana fyrr en snemma þessa árs. (Forseti hringir.) Ætli þessi vandi sé ekki heimatilbúinn að flestu leyti. Það er ekki boðlegt að setja Alþingi í þá stöðu að vera að ræða þetta vanbúna mál á þessum tímapunkti.