144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:26]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Hér halda menn áfram að ræða þetta undir liðnum um fundarstjórn forseta og vitna í fund hjá atvinnuveganefnd í morgun. En núna minnist enginn á minnisblaðið frá lögfræðingum í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Þeir komu fyrir nefndina í morgun og lýstu því yfir alveg afdráttarlaust að öll Þjórsáin, virkjunarkostir í neðri hluta Þjórsár, væru alveg á hreinu. Nefndin hefur fullt leyfi til að koma með breytingartillögu um þá. Skrokkalda er á gráu svæði. Þar er álit frá atvinnuvegaráðuneytinu sem hljóðar á annan veg.

Það kom líka fram hjá Landsvirkjun að það eru engir virkjunarkostir í gangi á öllu Suðurlandi og Suðvesturlandi. (Forseti hringir.) Þeir ítreka það. Það eru 35 megavött í Búrfelli. Það rétt mætir tveggja ára aukningu hjá heimilum og meðalstórum fyrirtækjum.