144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það var góð ábending sem kom frá þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, um að fjölmörg mál væru tilbúin til 2. og 3. umr. eftir að hafa fengið umfjöllun í nefnd. Þar af er dágóður slatti sem hefur verið afgreiddur í samstöðu úr nefndum. Ég tel mun heillavænlegra að í stað þess að þæfast við þetta mál á dagskrá tökum við þau mál sem einhver samstaða er um og afgreiðum þau svo að okkur takist sem þjóðþingi að koma alla vega einhverjum málum frá okkur og auka þannig virðingu okkar og gera hreinlega, ef ég leyfi mér að taka svo til orða, eitthvað af viti hérna.