144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:42]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem bara hingað upp til að lýsa mikilli hryggð yfir því að þetta mál skuli vera enn á dagskrá í þinginu miðað við það sem gengið hefur á hérna síðustu tvær vikurnar. Góður maður sagði einu sinni að hluti af lífshamingjunni væri að standa ekki í orrustum heldur reyna að forðast þær og snjallt undanhald væri sigur í sjálfu sér. Ég held að það væri mikill sigur fyrir meiri hluta hv. atvinnuveganefndar að draga þessa breytingartillögu til baka. Þá mundi hann leggja sitt lóð á vogarskálarnar og skapa aðeins meiri sátt og frið í þinginu. Það er búið að vera alveg hreint með ólíkindum það sem hefur gengið á hérna. Við vitum alveg hvernig umræðan er úti í samfélaginu. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. forseta til að hvetja meiri hluta í atvinnuveganefnd til að draga breytingartillöguna til baka því að nú hefur komið í ljós að verkefnisstjórn rammaáætlunar mun skila þessu öllu af sér innan tveggja ára eða eins og hálfs árs, þó að það væri ekki nema bara til að skapa frið í þinginu og sýna fram á að við séum að reyna að vinna fyrir þjóðina. Við erum ekki að sýna fram á það núna.