144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Við höldum nú áfram þeirri umræðu sem staðið hefur yfir nokkuð lengi, allt of lengi að mínu mati, og er í boði meiri hlutans á þingi, því miður. Hv. þm. Jón Gunnarsson talar í fréttum um að málsmeðferð minni hlutans sé til háborinnar skammar. Það er svolítið erfitt að standa undir því eða sitja undir því, eða hvað við segjum, og ber ekki vott um að sá hv. þingmaður telji að það þurfi að leita einhverra lausna í þessu máli, heldur gefur hann áfram í og kyndir undir því ófriðarbáli sem hann hefur byrjað á að kveikja.

Mér finnst alveg með ólíkindum að enginn skuli grípa inn í þessar aðstæður, að menn í meiri hlutanum fylgist allir þegjandi með þessari umræðu og sjái enga ástæðu til að grípa inn í og leiðbeina mönnum. Þetta minnir mig á barnaskóla þegar einhver einn foringi, einhver ein frekja, fær alla með í einhverja óknytti. Allir fylgja foringjanum og hann er ekki stoppaður af fyrr en skólastjórinn áttar sig á því hvað er á ferðinni og grípur inn í. En hvar er skólastjórinn í þessari ríkisstjórn? Hvar er hæstv. forsætisráðherra? Af hverju beitir hann ekki áhrifum sínum og grípur inn í svona aðstæður?

Við fórum í morgun ágætlega yfir hlutverk verkefnisstjórnar með formanni hennar, Stefáni Gíslasyni, og allir þeir sem hlýddu á mál hans ættu að vera orðnir vel upplýstir um hvernig lög um rammaáætlun virka og hvernig ferill það er. Það kom skýrt fram í máli hans að einhver flýtimeðferð er ekki í boði ef við ætlum að halda lögum um rammaáætlun í gildi. Ef við ætlum ekki að eyðileggja rammalöggjöfina, þessa löggjöf sem var í undirbúningi á Alþingi í fjölda ára og úti í samfélaginu, hjá bæði þeim sem vilja vernda og þeim sem vilja ganga frjálsir að því að nýta helst alla virkjunarkosti, hlustum við á formann verkefnisstjórnar, hvað hann telur í þessu máli og hvernig beri að vinna málið. Það var líka mjög áhugavert að heyra hann viðurkenna þau mistök að vinna ekki í takt við aðferðafræði verkefnisstjórnar, þá aðferðafræði sem hún vinnur eftir og er kölluð HP-aðferðafræðin, þar sem fyrst og fremst er byggt á samanburði milli virkjunarkosta. Þá þyrftu að lágmarki að vera hátt í 30 kostir undir en þegar átta kostir voru teknir í flýtimeðferð var það of lítið mengi til að vinna með. Það var hægt að segja að kostirnir væru vondur, verri, verstur eða góður, betri, bestur. En þannig er bara ekki hægt að vinna með það faglega ferli sem er undir hjá verkefnisstjórn. Núna eru þeir kostir sem voru settir í biðflokk, sem kom líka skýrt fram í morgun hjá formanni verkefnisstjórnar að var faglegt ferli, búnir að flytjast yfir í 3. áfanga. Menn geta ekki haldið áfram að tala um að horfa eigi til þess hvað hafi verið sett í nýtingarflokk í 2. áfanga vegna þess að 2. áfanga er lokið og honum lauk með því að eftir umsagnarferli færðust ákveðnir kostir í biðflokk og eru nú komnir í 3. áfanga.

Verkefnisstjórnin er þess fullbúin núna að hafa fagmenn, faghópa og nægt fjármagn til að ljúka þessari vinnu og ætlar sér að gera það eftir tilskilinn tíma og skila af sér 1. september 2016.

Það var líka spurt hvort hægt væri að taka einhverja kosti út úr þessu ferli og setja þá í sérvinnu nýrrar verkefnisstjórnar eða með nýjum sérfræðingum. Eðlilega taldi formaður verkefnisstjórnar að þá værum við bara að ganga fram hjá þeirri löggjöf sem við værum búin að samþykkja sjálf á Alþingi, að þetta ætti að vera í því ferli ef við vildum virða þá löggjöf. Í mínum huga og vonandi þeirra sem sátu þennan fund er alveg kýrskýrt að vinnan á að vera innan verkefnisstjórnar en ekki með breytingartillögum meiri hluta atvinnuveganefndar. Menn komu áðan inn á það að Alþingi væri jafnt sem ráðherra heimilt að koma með breytingartillögu. Jú, jú, það kom fram í máli þeirra sem komu frá umhverfisráðuneytinu, en hvað sögðu þeir líka? Að þeim breytingartillögum þyrfti að fylgja rökstuðningur um að eitthvað nýtt hefði komið fram frá því að þessir kostir voru settir í biðflokk sem rökstyddi það að nú væri lagt til að þeir færu í nýtingarflokk. Hvar er lagalegi rökstuðningurinn í breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar? Hann er ekki hægt að finna. Það er ekki bara ég sem finn ekki þann rökstuðning, Skipulagsstofnun finnur hann ekki og ekki heldur fleiri aðilar. Menn geta ekki bara pikkað upp af hlaðborði eitthvað sem þeir vilja heyra og vilja fá til rökstuðnings fyrir því að þeir geti kippt þessum fjórum kostum út úr lögformlegu ferli og sett í flýtimeðferð í gegnum Alþingi. Það er mjög ófaglegt og ég er undrandi yfir því að þingmenn meiri hlutans ætli allir sem einn að skrifa upp á svona málsmeðferð. Mér finnst það ekki vönduð vinnubrögð.

Svo er líka annað, ef mönnum er svo annt um að fá meiri orku til að bjóða, hvort sem er kísilverum, öðrum iðnaði eða bara öðrum kostum sem flokkast ekki undir stóriðju, við erum með ferðaþjónustu sem vex og dafnar og skapar orðið mesta gjaldeyrinn í þjóðfélaginu, hefðu menn kannski átt að slá í klárinn fyrr í ferlinu. Það kom í ljós að það tafði vinnu verkefnisstjórnar að ekki skyldi liggja skilmerkilega fyrir hvernig umhverfisráðuneytið ætti að greiða fagfólki sem vinnur í þessum faghópum. Það var ekki fyrr en við upphaf þessa árs sem þeir verkferlar lágu skýrt fyrir svo hægt væri að ganga frá ráðningum fagaðila til að vinna í þessum faghópum. Eitthvað mega menn líta í eigin barm með þessar tafir.

Það kom líka fram að það tók fimm mánuði að fá rökstuðning í gegnum Orkustofnun frá þeim virkjunaraðilum sem óskuðu eftir að virkjunarkostir færu í meðferð verkefnisstjórnar sem er bara hluti af lögformlegu ferli. Menn hafa á ýmsum vígstöðvum dregið lappirnar. Með því háttalagi að gera þá breytingartillögu sem meiri hlutinn gerði eru menn líka að tefja afgreiðslu á tillögunni um Hvammsvirkjun. Hún hefði trúlega verið komin inn og afgreidd ef þetta hefði ekki komið til. Hvað meina menn þá með því að þeir séu að hraða því að virkjunarkostir fari í nýtingu sem þeir bera svo fyrir brjósti?

Ég tel að við eigum að staldra við. Ég er ekki hlynnt því, og hef lýst því yfir oftar en einu sinni, að halda áfram á þeirri vegferð að nýta vatnsaflsvirkjanir og líka jarðvarmavirkjanir til að mata stóriðju. Ég tel komið nóg af stóriðju í landinu. Yfir 80% af allri raforkuframleiðslu í landinu fara í dag til stóriðju. Menn getur greint á um hve þjóðhagslega hagkvæmt það er, en varnaðarorð sem hafa verið sett fram og skrifuð, eins og af fyrrverandi ríkisskattstjóra, Indriða H. Þorlákssyni, eru umhugsunarefni, um að ekki skili sér nema sáralítið til baka til þjóðarbúsins vegna þess að svo lítill hluti af þeim gjaldeyristekjum sem verða til við framleiðslu áls skilar sér inn í hagkerfið. Það er launakostnaður og kannski einhver afleidd störf, en hagnaður eigenda er tekinn, því miður, í gegnum til dæmis dótturfyrirtæki út úr landinu. Eigum við ekki núna að staldra við þar sem það hefur komið í ljós að yfir 80% þeirra ferðamanna sem koma til landsins eru að heimsækja okkur og skapa miklar gjaldeyristekjur vegna þess að Ísland er með sitt ósnortna hálendi og þeir eru að skoða náttúruna fyrst og fremst?

Það er ekki lengur eingöngu atvinnugreinin stóriðja sem sækir í framleidda orku. Nú er komin önnur stærri atvinnugrein inn í landið, ferðaþjónustan, í samkeppni við stóriðjuna. Ég tel miklu fýsilegra til framtíðar að við Íslendingar horfum til uppbyggingar í ferðaþjónustu og öllum þessum fjölda starfa sem getur skapast í kringum ferðaþjónustuna í landinu. Við getum ekki hugsað um að byggja upp í stóriðju samhliða uppbyggingu í ferðaþjónustu. Þannig er veruleikinn. Það liggur líka fyrir að Landsvirkjun hefur ekki neina skuldbindandi samninga um afhendingu raforku til allra þeirra kísilvera sem núna er verið að tala um að reisa. Það er til næg orka fyrir það kísilver sem á að reisa á Bakka. Fyrsti áfangi Þeistareykja skilar orku í það verkefni og annar áfangi á að vera tilbúinn um 2020. Landsvirkjun er búin að gera samning við United Silicon á Suðurnesjum upp á ¼ af því sem það fyrirtæki stefnir að, en varðandi klísilverin uppi á Grundartanga og Torsil liggja engir samningar fyrir.

Það hefur líka komið fram að við höfum möguleika til að auka orkuöflun með stækkun Búrfellsvirkjunar, stækkun Blöndu, stækkun í Kröflu og við höfum í kerfinu ein 100 megavött. Við erum ekkert á flæðiskeri stödd, langt í frá, nema við ætlum að keyra áfram grimmar virkjunarframkvæmdir á kostnað náttúrunnar til að afhenda í framkvæmdir eins og álver í Helguvík sem tekur 625 megavött eða áburðarverksmiðju sem tekur 350 megavött. Þetta tvennt var kynnt sem hluti af sviðsmyndum Landsvirkjunar. Er það þetta sem við viljum? (Forseti hringir.) Nei, takk, ekki ég.