144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir góða ábendingu. Varðandi það að yfir 80% af raforku eru framleidd á Suðurlandi og einungis 4% skila sér aftur í atvinnuuppbyggingu á svæðinu er mjög umhugsunarvert. Ég kom inn á þetta í fyrri ræðu minni og ég er ekki undrandi á því að Samband sunnlenskra sveitarfélaga sé farið að verða uggandi yfir þeirri þróun. Við höfum ekki rætt þetta sérstaklega í atvinnuveganefnd, ekki svo ég muni eftir nákvæmlega, en þetta er auðvitað eitthvað sem við höfum hjá okkur í umsögnum þessara aðila. Mér finnst að það sé eitthvað sem við eigum að horfa til að það sem verður virkjað áfram á Suðurlandi eigi að nýta þar heima í héraði. Við horfum á mikla framleiðslu í grænmeti og horfum á ýmsa aðra atvinnuuppbyggingu, auðvitað eigum við að nýta það rafmagn heima í héraði.