144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að vitna aftur í hv. þm. Jón Gunnarsson í hádegisfréttum. Þar sagði hann að verkefnisstjórn hefði á fundi atvinnuveganefndar sagt að Skrokkalda væri á gráu svæði og þannig gefið í skyn að Holta- og Urriðafossvirkjanir væru þá ekki á gráu svæði. Nú komu upplýsingar um þessa þrjá virkjunarkosti í umsagnarferli sem vöktu upp spurningar, þess vegna var þeim haldið í biðflokki, öllum þremur. Ég vil spyrja hv. þingmann og biðja hana að útskýra fyrir mér, hver er munurinn? Þarna eru þrjár virkjanir þar sem út af standa spurningar sem verkefnisstjórn hefur verið beðin um að svara, hún hefur ekki haft tækifæri eða tíma til þess að gera það. Af hverju gildir eitthvað annað um Skrokköldu en hinar virkjanirnar tvær? Allar þrjár virkjanirnar eru í biðflokki. Það eru kostir sem þarf að rannsaka betur.