144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:15]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tek undir það með hv. þingmanni að ekki sé hægt að kaupa sig fram fyrir í röðina.

Mig langar að spyrja hana hvort hún sé ekki sammála þeirri túlkun laganna, sem kom fram hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti í morgun, að þessir þrír virkjunarkostir í neðri hluta Þjórsár væru klárlega þannig að við hefðum fullan rétt á að færa þá um flokka og að þingið hefði sama rétt og ráðherra til að færa virkjunarkosti milli flokka.

Þá er það seinni kosturinn, Skrokkalda, álit hv. þingmanns á því — faghópar voru í fyrra ferli búnir að setja þá virkjun í nýtingarflokk en biðja nú um gögn varðandi víðerni og verndarsvæði Vatnajökulsþjóðgarðs (Forseti hringir.) þar sem þessi orð eru hvergi til í lögum, það er hvergi lagastoð fyrir því að biðja um þessi gögn.