144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram hjá fulltrúum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í morgun að lögin eru ekki nægilega skýr um það hvað fagleg umfjöllun er. Það kom fram að þessir kostir í neðri hluta Þjórsár, sem við deilum um hér, fengu umfjöllun í 2. áfanga verkefnisstjórnar, en sá ferill endaði í því, eftir lögformlegu ferli, að lenda í biðflokki. Sú staða færist yfir í 3. áfanga, þar er hún núna. Og efnislegri umfjöllun og rannsóknum hvað varðar neðri hluta Þjórsár og laxastofninn þar hefur ekki verið lokið. Það kom enn fremur fram hjá fulltrúum umhverfisráðuneytisins að ef ráðherra eða þingmenn hygðust gera breytingartillögu á þeirri þingsályktunartillögu sem lá hér fyrir þyrfti lagalegan rökstuðning, hvað hefði breyst frá því að (Forseti hringir.) þeir kostir fóru í biðflokk. Sá lagalegi rökstuðningur liggur ekki fyrir.