144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Eðli málsins samkvæmt hafa umræður hér talsvert hverfst um deilumálið og lagaleg álitamál. Það er spurning hvort þessi fáheyrða breytingartillaga meiri hlutans sé yfir höfuð þingleg eða lögleg. Óskynsamleg er hún í öllu falli og gengur klárlega gegn anda og hugmyndafræði vinnubragðanna um rammaáætlun. Því verður aldrei á móti mælt, samanber þann ófrið sem hún hefur skapað um ferli sem var hugsað gagngert til að reyna að ná breiðari og frekari sátt um vandasamar ákvarðanir í þessu mikilsverða máli. Um hverjar náttúrugersema okkar getur orðið friður að virkja, nýta til orkuframleiðslu, hvað þarf að rannsaka betur og hvað ætlum við að ákveða að verði ekki virkjað?

Þetta er hluti af mjög stóru prinsippmáli fyrir þessa þjóð. Hvernig umgöngumst við landið okkar? Hvað megum við, núlifandi kynslóð, í þessum efnum og hvað ekki? Hverjar eru skyldur okkar við framtíðina, við landið, börnin okkar, óbornar kynslóðir? Þá er ágætt að velta fyrir sér stóru stöðunni. Nú er búið að virkja talsvert á Íslandi. Íslendingar eru heimsmethafar í raforkuframleiðslu per mann. Við erum hér með þrjú álver og nokkur fleiri stór eða meðalstór orkufrek fyrirtæki þannig að orkunotkun á Íslandi er orðin meiri en nokkurs staðar annars staðar í heiminum per íbúa. Núna erum við að framleiða 18 teravattstundir af raforku á ári, 18 þús. gígavattstundir.

Við erum komin býsna langt. Þegar ég lærði jarðfræði í háskólanum á sínum tíma, fyrir nokkrum árum, var stundum gamla þumalputtaviðmiðunin að sennilega væri hægt að virkja á Íslandi í fallvötnum og jarðhita 45–50 teravattstundir. Vita menn hvað þá var dregið undan? Það var ekki margt. Þetta var grófur útreikningur á því hvað fallvötnin og jarðhitinn gætu skilað að slepptum Gullfossi og Geysi. Nú erum við sem sagt komin í 18 af 45 miðað við þessa gömlu viðmiðun en síðan hafa tímarnir breyst og málin þroskast.

Nú skulum við segja að það sé búið að ákveða að hreyfa ekki við Jökulsá á Fjöllum sem er stærsta jökulvatnið sem enn fellur til sjávar alls ótruflað af virkjun eða miðlun. Við skulum reikna með að það verði aldrei farið í Hvítá í Borgarfirði og heldur ekki í Hvítá á Suðurlandi, a.m.k. ekki þannig að Gullfoss truflist, er það ekki? Við skulum vona að Skjálfandafljót verði ekki virkjað, a.m.k. þannig að aldrei verði hreyft við Aldeyjarfossi og Goðafossi. Jökulsárnar í Skagafirði? Við skulum vona að Villinganesvirkjun verði að minnsta kosti aldrei reist, lítil virkjun með lóni sem mundi fyllast á 25–40 árum. Skammgóður vermir þar. Ég gæti haldið áfram, ég tel að aldrei verði hreyft við stóru bergvatnsánum sem eru mestu laxveiðiár Íslands og þótt víðar væri leitað. Það verður ekki átt meira við Laxá, það verður ekkert átt við laxveiðiárnar á norðausturhorninu, í Þistilfirði og Vopnafirði. Það yrði borgarastyrjöld í landinu ef ætti að gera það þannig að frádrátturinn frá því sem eftir er af óvirkjuðu vatnsafli er býsna stór þegar við tökum þessar miklu ár út úr dæminu, Jökulsá á Fjöllum, Hvítárnar o.s.frv.

Eigum við að snúa okkur að háhitanum? Vel að merkja er þetta fræðilega útreiknað afl sem menn hafa endurmetið talsvert, m.a. vegna þess að sum svæði hafa ekki reynst skila því sem menn héldu, jafnvel þótt menn væru tilbúnir í ágenga nýtingu. Sennilega voru gömlu, grófu útreikningarnir á aflinu úr jarðhitanum alltaf ofmetnir. Þar skulum við gefa okkur að aldrei verði hróflað við Torfajökulssvæðinu, það verði aldrei átt við Kerlingarfjöll — eða býður einhver í það? Vill einhver það hérna inni? Gefum okkur að aldrei verði farið á Hveravelli, að það verði aldrei farið í Vonarskarð, ekki farið í Brennisteinsfjöll og ekki Gjástykki. Þannig gæti ég áfram talið.

Hver er þá niðurstaðan af þessu? Hún er sú að það er miklu minna eftir sem líklegt er að verði nokkurn tímann friður um í þessu landi að virkja og hrófla við. Ergó, þær ákvarðanir sem við tökum um það sem verður nýtt í framhaldinu eru gríðarlega mikilvægar og vandasamar. Það er ekkert annað en frumstæð frekja að ætla að vaða fram eins og meiri hluti atvinnuveganefndar gerir núna. Það er ábyrgðarleysi gagnvart komandi kynslóðum, lítilsvirðing við náttúru Íslands og ekki boðlegt að við séum ekki komin lengra á árinu 2015. Það er ekki boðlegt ef við setjum það inn í þetta samhengi. Örfáir menn eru að reyna að telja okkur trú um það hér að ekkert hafi breyst á Íslandi í 30–40 ár, að viðhorfin séu enn jafn frumstæð gagnvart því að ganga að landinu í þágu erlendra stóriðjuhagsmuna. Ég tek því ekki þegjandi. Það verður lítið blóð eftir í mér áður en ég gefst baráttulaust upp fyrir slíkri framgöngu.

Okkur ber skylda til að vanda okkur. Við höfum ekkert leyfi til þess, núverandi kynslóð í landinu, að hegða okkur eins og við og við ein í 10–20 ár skiptum öllu máli, það sé engin framtíð, engin ábyrgð, það hafi aldrei verið rætt um fyrirbærið sjálfbæra þróun og annað í þeim dúr. Ætlum við að halda þessari keyrslu áfram og tína út stóran hluta þess sem fræðilega er mögulegt að virkja og skilja ekkert eftir handa komandi kynslóð? Er vilji manna að láta svoleiðis?

Hér er búinn til skáldskapur um einhverja ægilega knýjandi þörf sem reynist engin vera. Það gerist ekki neitt sem veldur neinum vandræðum eða skaða þó að verkefnisstjórn fái tíma til að ljúka vinnu sinni og skili af sér eftir 15–18 mánuði. Það er sómasamlegt ferli. Við verðum örugglega ekki öll sátt við nákvæmlega niðurstöðuna þar en þá þurfum við ekki að rífast um leikreglurnar, um aðferðafræðina. Það er það sem við höfum komið okkur saman um. Og munum að síðan þurfum við að lifa með niðurstöðunni, hver sem hún verður, og þá skiptir miklu máli að hafa góða sannfæringu fyrir því að menn vönduðu sig við að taka ákvörðunina. Eða vilja menn rífa upp fleiri sár? Vilja menn ný og ný Kárahnjúkastríð? Hvað gengur mönnum til? Hvaða offors er það að setja allt gjörsamlega í uppnám, koma í veg fyrir að þingið komist lönd eða strönd með nokkurn skapaðan hlut? Út af hverju? Út af frumstæðri frekju í örfáum mönnum. Það er ekkert annað. Það er enginn annar að biðja um þetta. Landsvirkjun er ekki að biðja um þetta, nei, hún er alveg sátt við að það verði farið að hinu faglega ferli. Það liggur fyrir, enda kemur það ekkert við hana. Hún hefur nóg að gera næstu missirin. Þessari nauðhyggju verður að fara að linna og ég bið menn að hugsa sinn gang í stað þess að strá hér salti í sárin.

Þetta eru erfið mál fyrir okkur og það eru gjörbreyttir tímar hvað varðar meðvitund þjóðarinnar gagnvart umhverfisvernd og náttúru landsins, eins og til dæmis deilurnar um veg um Gálgahraun færðu okkur heim sanninn um. Ekki gera lítið úr því hugsjónafólki sem elskar landið sitt og vill ekki sjá svona lagað. Það er kaldrifjað að láta eins og það sé ekki til þegar stórhöfðingjarnir, hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Páll Jóhann Pálsson, koma í ræðustólinn. Það er nefnilega ekki þannig að menn hafi einhvern guðs útvalinn einkarétt á því að vaða svona áfram. Sem betur fer er fullt af fólki bæði innan veggja þingsins og auðvitað úti í samfélaginu sem vill vera rödd og skjöldur móður náttúru og ætlar ekki að láta svona hegðun viðgangast. Það eru gjörbreyttir þjóðhagslegir tímar á Íslandi hvað það varðar að orkufrek stóriðja er á engan hátt sambærileg við það í dag í þjóðhagslegu tilliti sem einhverjir héldu kannski að hún væri eða yrði fyrir 30–40 árum þegar menn töluðu stundum eins og það eina sem gæti bæst við fiskinn væru álbræðslur. Nú vitum við betur. Nú sjáum við að vaxtarmöguleikar okkar og tækifæri liggja annars staðar. Það liggur ekki í því að ganga áfram á náttúru landsins í þágu þess að niðurgreiða rafmagn ofan í erlenda auðhringa. Framtíðin liggur í okkur sjálfum, í landinu okkar og þekkingu. Sjálfsvirðing okkar er bundin því að við sem kynslóð komum sómasamlega fram í þessum efnum. Við þurfum ekki fleiri Kárahnjúkamál. Það var meira en nóg í bili. Við skulum vanda okkur, stunda fagleg vinnubrögð, reyna að sættast á leikreglurnar sem gera okkur auðveldara að lifa með niðurstöðunum, hverjar sem þær verða og hvort sem þær falla hverjum og einum vel í geð. Það er algjör ófarnaður að halda áfram á þessari braut. Breytingartillaga meiri hluta atvinnuveganefndar verður að hverfa af himni og sjást aldrei meir. Skynsamlegast væri auðvitað hjá ríkisstjórninni að biðjast afsökunar á þessum málatilbúnaði, draga málið allt (Forseti hringir.) til baka og bíða með allan pakkann þangað til verkefnisstjórn rammaáætlunar skilar af sér heildstæðri röðun á 25–30 kostum eftir um það bil eitt og hálft ár.