144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir mjög innblásna ræðu en eins og allir vita hefur þingmaðurinn beitt sér mjög mikið í náttúruverndarmálum á sínum þingferli, við vitum það öll og þekkjum það.

Nú er það svo að náttúruverndarsinnar eru til í öllum flokkum, alls staðar í samfélaginu. Í öllum flokkum er fólk sem unnir náttúrunni, það er auðvitað ekki hægt að halda öðru fram. En það er einmitt meginástæðan fyrir því að þetta ferli varðandi rammaáætlun var sett af stað og að því komu flokkar, meðal annars Sjálfstæðisflokkurinn.

Ég batt miklar vonir við að okkur mundi takast að hefja þetta mál upp fyrir pólitískar deilur og ná að raða þessum virkjunarkostum sem til staðar eru niður eftir því sem verkefnisstjórn á sínum tíma lagði upp með. Þegar síðasta ríkisstjórn tók það síðan upp hjá sér að færa til nokkra kosti, eftir að ríkisstjórnarflokkarnir voru búnir að koma sínu fólki inn í það ferli að flokka röðunina frá verkefnisstjórninni niður, var friðurinn í sundur. Það kom í ljós á síðasta kjörtímabili. Um það héldum við margar þingræður hér í þessum stól.

Hv. þingmaður hélt því fram að hér færi fólk fram, meiri hluti atvinnuveganefndar, sem vildi virkja allt og gera það allt saman á okkar tímum og skilja ekkert eftir fyrir komandi kynslóðir. Það er auðvitað þannig að þó að virkjunarkostir færu í nýtingarflokk þýðir það ekki að virkjað verði á morgun. Það er langt ferli eftir, alla vega hvað varðar marga virkjunarkosti, áður en tekin verður ákvörðun um að heimila það að fara í virkjun. Við skulum ekki vera að reyna að slá ryki í augu fólks hér í þessum sal.