144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að náttúruverndarsinnar í mínum flokki og Framsóknarflokki, geri ég ráð fyrir ef ég á að reyna að lesa í spilin, stökkva ekki á málflutning stjórnarandstöðunnar er einfaldlega vegna þess að málflutningurinn er ekki sannfærandi. Það vita allir að þingið getur lagt fram tillögur. Síðan koma þær tillögur hingað til atkvæða. Þannig eru leikreglurnar, fyrst vísað er í að fara eftir leikreglum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann var áður formaður Vinstri grænna sem gefur sig út fyrir að vera mikill náttúruverndarflokkur: Gildir það aðeins gagnvart Íslandi? Ég hef oft verið hugsi yfir því að ef við ætluðum að hugsa um náttúruverndarsjónarmið, við með alla okkar möguleika á því að vera hér og bjóða upp á græna orku, ber okkur ekki skylda til að virkja meira? Hvernig lítur hv. þingmaður á það? Er það ekki skylda okkar ef við hugsum ekki einungis um Ísland sem eyju, sem kemur engum öðrum við, heldur um Ísland og möguleika okkar í hinum stóra heimi? Ber okkur ekki skylda til þess að leggja okkar af mörkum til að framleiða meiri græna orku?