144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ríkasta skylda Íslands sé við landið sjálft. Ég held að við berum umfram allt annað ábyrgð gagnvart Íslandi, þessu landi sem okkur hefur verið falið að sjá um að passa upp á. Þar liggur ríkasta skylda okkar og við gerum það í þágu alls heimsins að Íslandi verði ekki spillt og því fordjarfað.

Varðandi hinn barnalega málflutning, virðulegur forseti, ég verð að að leyfa mér að segja það, að Ísland geti lagt verulega af mörkum til að leysa umhverfis- og mengunarvanda heimsins með því að virkja allt hér, hvað haldið þið að það mundi draga þótt við bættum við 10, 20, 30 teravattstundum? Heildarraforkuframleiðslugetan á Íslandi var einhvern tíma áætluð svipuð og fylkið Hamborg notar, ein borg í Þýskalandi. Það breytir ekki orkubúskap heimsins, þannig að augljóslega liggja skyldur okkar við landið sjálft og náttúruna hér nr. 1. Jú, jú, það er auðvitað ágætt að rafmagn sé framleitt með vatnsafli eða jarðhita frekar en það sé reist eitt kolakynt orkuver á stærð við Kárahnjúkavirkjun á viku í Kína.