144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:43]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Landsvirkjun vill að farið sé að lögum og reglum, og Landsvirkjun vill framtíðarsýn. Landsvirkjun er í þeim sporum í dag að hún hefur engan kost að bjóða á Suður- og Suðvesturlandi. Hv. þingmaður nefndi hér að framtíðin liggi í okkur sjálfum. Ég er alveg sammála því. Framtíðin liggur í okkur sjálfum og að við nýtum landið og auðlindir þess. Við skulum átta okkur á því að það vatn sem rennur til sjávar í dag, við virkjum það ekki eftir ár, hvað þá eftir tíu ár. Virkjun á árum næstu kynslóðar virkjar það vatn sem rennur þá en ekki það sem rennur í dag. Ég spyr hv. þingmann: Eigum við ekki að halda áfram að nýta allar þær auðlindir? Ef við ætlum að halda uppi þeim þjóðarstandard sem við viljum og gerum kröfur um, veitir okkur þá ekki af að nýta þær auðlindir sem til eru, bæði til sjávar og sveita?