144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að okkur Íslendingum ríði sérstaklega á að nýta verðmætustu auðlindina, og það erum við sjálf, það er hausinn á okkur sjálfum. Hann er sennilega vannýttasta auðlind Íslands þegar upp er staðið miðað við það hvernig ýmislegt hefur gengið hjá okkur, við hefðum átt að reyna að nota okkar takmörkuðu gáfur til að hugsa stundum meira, Íslendingar, og vaða ekki áfram í blindni. Ætti hrunið nú að hafa rifjað það upp fyrir mönnum að stundum er betra að fara sér hægar og gera eitthvað af viti en vaða áfram í algerri blindni.

Landsvirkjun vill framtíðarsýn, já, ég skil það vel. En Landsvirkjun mun vinna úr þeim niðurstöðum sem verða. Það hefur hún líka tekið fram. Landsvirkjun hefur sýnt okkur í bækur sínar þar sem hún stillir upp prýðilegri og batnandi afkomu. Þó hún byggi enga einustu virkjun í viðbót, þá borgar hún niður skuldirnar af þeim sem komnar eru og getur farið að greiða þjóðinni tugmilljarða á ári í arð af auðlindunum. Framtíðin er ekki endilega í þessu, að vaða bara áfram. Það er nefnilega ekki þannig. Og hvað er nú líklegt að gagnist Landsvirkjun? Áframhaldandi grenjandi ófriður um þessi mál (Forseti hringir.) eins og nú er verið að stefna í eða röðun á 25–30 kostum eftir eitt og hálft ár sem gefur Landsvirkjun þá framtíðarsýn að hún veit að hverju hún gengur og vonandi þá í sæmilegum friði við land og þjóð? Ég held því fram (Forseti hringir.) að þetta sé til óþurftar, gríðarlegrar óþurftar fyrir aðila eins og Landsvirkjun og fyrir allan þann geira sem hv. þingmenn standa hér fyrir, hv. þingmenn Páll Jóhann Pálsson og Jón Gunnarsson, (Forseti hringir.) svo þeir séu nú einu sinni enn nefndir sameiginlega.