144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög góð spurning. Rammaáætlun og aðferðafræðin þar og lögin utan um það er að mínu mati — þó að þar megi að sjálfsögðu skoða einstök atriði í sambandi við skýrleika laga — hin hárrétta aðferð varðandi þann þátt málsins að bera saman og meta og raða upp þessum kostum, vega saman nýtingu versus vernd og allt það.

Það sem ég tel að vanti inn í dæmið er pólitísk stefnumörkun og ákvörðunartaka um það hvernig við ætlum að nálgast þessa orkuauðlind okkar. Tökum bara dæmi: Er það þannig sem við viljum ganga fram sem kynslóð núna að við tínum virkjunarkostina upp í þeirri röð sem þeir eru hagkvæmastir og skiljum þá alltaf eftir, handa einhverjum öðrum og síðar, óhagkvæmari og óhagkvæmari kosti. Fram að þessu hefur það verið það sem er að gerast. Það liggur á bak við græðgina í neðri hluta Þjórsár.

En er það sanngjarnt ef svo þarf að fara að virkja eftir 20 ár fyrir almennan markað á Íslandi? Þá standa engir hagkvæmir kostir til boða. Þá eru menn neyddir til að fara út í dýrari kosti. Af hverju ekki að blanda þessu saman? Segja við Landsvirkjun sem ræður nú mestu í þessu: Ef þið fáið einn mjög hagkvæman virkjunarkost í vatnsafli eða jarðhita þá verður næsta virkjun hjá okkur af hinum endanum af því að við ætlum að umgangast þessa auðlind af ábyrgð. Bara stefnumótun um þetta mundi gerbreyta öllu landslaginu.

Og ég velti því fyrir mér hvað sé að því að segja við Landsvirkjun: Nei, nú fáið þið ekki að fara áfram í næsthagkvæmasta vatnsaflskost á eftir Búðarhálsvirkjun sem til er. Þið getið stækkað Búrfell. Þið megið fara í Kvíslaveiturnar norður eftir Blöndu. Þið getið farið í nokkrar litlar rennslisvirkjanir í Lindá. Þær eru vissulega ekki eins hagkvæmar á framleidda einingu eins og kannski Urriðafoss. Við reiknum með því að einhvern tíma muni þurfa að nýta þessa kosti og þá tökum við þá í einhverri svona blandaðri röð, og sama mætti segja um jarðhitann. Bara þetta til dæmis mundi breyta forsendunum sem við værum að takast á um hvað varðar þessa hluti.