144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott svar og áhugavert. Ég hlakka til að ræða þetta í þinginu síðar meir, hvernig svo sem fer fyrir þessu árans máli.

Mig langaði sérstaklega til að stinga að hv. þingmanni því sem varðar eitt af þeim ferlum sem var notað á síðasta kjörtímabili, það varðar umsagnarferlið, sem er í bráðabirgðaákvæðum laga um rammaáætlun, sem notað var af þáverandi hæstv. ráðherra. Sér hv. þingmaður fyrir sér að einhvern veginn sé hægt að búa betur um það ferli þannig að það sé fyrirsjáanlegra, þannig að ekki verði þessar deilur sem upp komu þegar farið var eftir því ferli?

Mig langar sérstaklega að spyrja hvernig hv. þingmaður mundi taka í það að umhverfismat mundi framlengjast meðfram slíku ferli þannig að það rynni ekki út á sama tíma, sem dæmi. Þetta er eitt af því sem ég hef velt fyrir mér þegar ég hef verið að skoða þessi gögn öllsömul. Ég hef ekki tíma fyrir seinni spurninguna og læt þessa duga í bili.