144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:58]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Rétt í þessu þurfti ég að bregða mér úr salnum til þess að eiga orðaskipti við hv. þm. Jón Gunnarsson um þá tillögu sem hér er til umfjöllunar á útvarpsstöðinni Bylgjunni. Ég vitnaði í orð hv. þingmanna í meiri hluta atvinnuveganefndar í þeim þætti og sagði að þeir hefðu báðir viðurkennt það, hann og hv. þm. Páll Jóhann Pálsson, að verkefnisstjórn segði að Skrokkalda væri á gráu svæði. Það væri þess vegna eðlilegt af hv. þingmönnum að draga að minnsta kosti þá tillögu til baka og hörfa enn frekar en þeir hafa nú þegar gert. Þá segir hv. þm. Jón Gunnarsson að það sé bara eitthvað sem verkefnisstjórnin segi.

Hins vegar hika þessir hv. þingmenn ekki við að hreykja sér af því að verkefnisstjórnin segi að það sé allt í lagi með það sem þeir eru að gera í neðri hluta Þjórsár. Þá er allt í einu mikið mark á því takandi. Menn velja sér algjörlega það sem hentar í þessu máli og kjósa að afbaka og fara með málið eins og þeim dettur í hug. (Forseti hringir.) Þetta er náttúrlega fullkomlega ótækt, virðulegur forseti.