144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi dagskrártillaga sé aftur komin fram og mun að sjálfsögðu greiða atkvæði með henni á morgun, eins og allir hér sem vilja ræða þau mál sem eru aðkallandi í samfélaginu, sem eru auðvitað kjaramálin og afleidd vandamál.

Nú liggur fyrir eftir fund hv. atvinnuveganefndar í morgun að það liggur ekkert á því að afgreiða þessa tillögu núna, það liggur ekkert á því. Það liggur hins vegar á því að við tölum um kjaradeilurnar og afleidd vandamál. Þau afleiddu vandamál eru þegar farin að koma til og þau munu aðeins verða verri og við þurfum að ræða þau.

Mér fannst í óundirbúnu fyrirspurnunum til hæstv. forsætisráðherra í morgun eins og hann áttaði sig ekki á því að það væru afleidd vandamál af kjaradeilunum sem herja á einn mikilvægasta iðnað á Íslandi, sem er ferðamannaiðnaðurinn. Við verðum að takast á við það, og það verður sífellt mikilvægara og mikilvægara.