144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:05]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég fagna líka þeirri dagskrártillögu sem minni hlutinn hefur lagt fram og eygi von um að stjórnarmeirihlutinn sjái að sér, að það sé heillavænlegra fyrir land og þjóð að hún komist á dagskrá ásamt svo mörgum öðrum málum sem við gætum komist að samkomulagi um að afgreiða.

Ástæðan fyrir því að við móumst við varðandi þá tillögu sem er til umræðu er auðvitað til að hafa í heiðri það ferli sem er í anda þeirra laga sem sett voru um rammaáætlun. Það er eitthvað sem við í minni hlutanum teljum að okkur beri að standa vörð um og að sjálfsögðu teljum við að meiri hlutinn eigi að gera það líka. En það virðist vera auðvelt að velja sér setningar til þess að rökstyðja ákvarðanatöku sína, eins og meiri hlutinn virðist ætla að gera.

Núna fjölmennir fólk á Austurvöll og af því að það eru hv. þingmenn hér úr Suðurkjördæmi má velta því fyrir sér að nú að loka um 75% (Forseti hringir.) allra sjúkrarýma á Selfossi og í Vestmannaeyjum. Er það eitthvað sem þingmenn Suðurkjördæmis, af því að ég sé að einn þeirra hefur bankað hér, telja að við þurfum kannski frekar að fjalla um leiðir til lausnar á?