144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla að vona að þessi dagskrártillaga verði óþörf, þ.e. að forseti sjái að sér og setji upp annars konar dagskrá á morgun. En ef svo skyldi ekki fara þá eigum við ekki annan kost en að halda áfram að vekja athygli á því hversu fáránlegt þetta er. Og auðvitað eru það grafalvarlegar upplýsingar sem koma hér fram frá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, formanni þingflokks VG, að það eru engin samtöl í gangi, það er engin viðleitni sýnd. Það er bara hv. þm. Jón Gunnarsson sem fer með sáttaumleitanirnar hérna með þeim glæsilega brag sem við höfum orðið vitni að bæði í fjölmiðlum og hér í stólnum í dag.

Austurvöllur er að fyllast af fólki, það er væntanlega þjóðin, forsætisráðherra, sem er að misskilja þetta allt, misskilur snilld forsætisráðherra, en greiðir atkvæði með fótunum og mætir þúsundum saman á Austurvöll. Þarf ekki ríkisstjórnin og meiri hluti hennar að fara að hugsa sinn gang eða eru menn bara tilbúnir til þess að elta hv. þm. Jón Gunnarsson og Pál Jóhann Pálsson fram af bjargbrúninni eins og læmingjar? (Forseti hringir.) Er stjórnarliðið bara ein læmingjahjörð, forustulaus? Ekki er það forsætisráðherra sem vísar veginn í gæfulega átt. Viljið þið ekki fara að hugsa, hv. þingmenn í stjórnarliðinu, hvert þið eruð að fara?