144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:08]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við höfum lagt fram þessa dagskrártillögu vegna þess að í dag eru stórir hópar innan BHM búnir að vera í verkfalli í 48 daga. Á miðnætti fara hjúkrunarfræðingar í verkfall og það þýðir að skurðstofum verður lokað og sjúklingar verða sendir heim. Þessi ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur engan áhuga á að ræða þetta. Menn eru ekki tilbúnir til að setja þessi mál á dagskrá. En hæstv. forsætisráðherra er til í að tala um þessi mál og senda blammeringar til þessa fólks aftur og aftur úr fjölmiðlum.

Virðulegi forseti. Hann kemur líka hingað í þennan stól og talar eins og þessi mál komi ríkisstjórninni ekki við, að fyrst verði menn á hinum almenna vinnumarkaði að leysa sín mál. En ríkisstjórnin og ríkið er viðmælandi og viðsemjandi þeirra aðila sem hafa verið í verkfalli í 48 daga og ríkið er viðsemjandi hjúkrunarfræðinga. (Forseti hringir.) Ætlum við í alvörunni að halda svona áfram? Virðulegi forseti. Þetta er algjör firring.