144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Veruleikinn er sá að það hefur farið fram valdaafsal ríkisstjórnarinnar til hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Við verðum að horfast í augu við að það hafa orðið stjórnarskipti í landinu og hv. þm. Jón Gunnarsson er með valdasprotann, það er bara þannig. Á meðan ólgar allt þjóðfélagið. Austurvöllur er að fyllast af fólki sem mótmælir yfirgangi ríkisstjórnarinnar og forgangsröðun hennar í þeim málum sem brenna á þjóðinni. Það er látið eins og ríkisstarfsmenn hafi ekki samningsrétt. Forustumenn ríkisstjórnarinnar tala þannig að það verði ekkert samið við ríkisstarfsmenn fyrr en samningar á almenna markaðnum liggja fyrir. Það er ekki skrýtið að blóðið ólgi í þjóðinni við svona aðstæður þegar ríkisstjórnin virðist vera algjörlega úr tengslum við sína þjóð.