144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:18]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er ekki óskastaða að standa í pontu á Alþingi dag eftir dag og mótmæla dagskrá fundarins og ofríki forseta Alþingis, Einars Kristins Guðfinnssonar, með þeim hætti sem hér fer fram. En við verðum að gera það vegna þess að við viljum vernda og hafa í heiðri ferli rammaáætlunar. (Gripið fram í.) Með því að mótmæla á þennan hátt, og á þann eina hátt sem okkur er fær, þá gerum við það og við höldum því áfram. Það er vert að hafa í huga að fólkið sem er mætt út á Austurvöll, og á Akureyri og líklegast víðar, borðar ekki rammaáætlun. Rammaáætlun eða þeir virkjunarkostir sem meiri hluti atvinnuveganefndar vill setja í nýtingarflokk bjarga ekki launaumslagi þessa fólks. Þeir bjarga því ekki að loka þarf 75% rýma á sjúkrahúsum á Suðurlandi o.s.frv.

Virðulegi forseti. Við þurfum að fara að takast á við þau vandamál sem fólkið hér úti kallar eftir.