144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:22]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að lýsa furðu minni yfir þeirri fundarstjórn sem á sér stað hér og dagskránni sem okkur er boðið upp á. Það hefur komið fram í máli hv. þingmanna hvernig ástandið er að verða í samfélaginu, til dæmis eru 75% hjúkrunarrýma á Suðurlandi að lokast. Það er háalvarlegt mál.

Ég er líka alls ekkert þreyttur á því að nefna að það eru bændur sem búa á bökkum Þjórsár sem á að fara að setja í kaf. Mig langar rosalega mikið til að vita og það væri rosalega gaman að heyra hv. þingmenn í Suðurkjördæmi lýsa skoðun sinni á því hvað þeim finnst um að þarna eigi að fara að reka fólk af jörðum sínum án þess að hafa nokkuð samráð við það. Það hefur komið fram í viðtölum við bændur á þessu svæði að ekki hefur verið haft neitt samráð við þá. Þarna á bara að vaða yfir fólk á skítugum skónum. Finnst þingmönnum Suðurkjördæmis það ekki ámælisvert, alla vega þess virði að skoða? Ég hvet hæstv. forseta til að slíta þessari umræðu og breyta um dagskrá.