144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:25]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það séu mikil mistök hjá forseta þingsins að hafa ekki tekið þetta mál af dagskrá í morgun í kjölfar fundar í atvinnuveganefnd. Þar var upplýst að það er fyrst og fremst sleifarlag ríkisstjórnarinnar við verkstjórn og skipulag vinnu við rammaáætlun sem hefur valdið því að rannsókn á virkjunarkostum er ekki lengra komin en raun ber vitni. Það var ekki tekið af skarið um að verkefnisstjórn hefði fjárveitingar fyrr en í febrúar á þessu ári og þegar svo háttar til af hálfu ríkisstjórnar er náttúrlega algjörlega fráleitt að hún reyni að bæta fyrir sleifarlag sitt í verkstjórn með því að ganga þvert á lögbundna ferla við framgang mála að öðru leyti. Það eru engin rök fyrir því að halda þessu máli áfram á dagskrá þegar svo er í pottinn búið og þegar við blasir (Forseti hringir.) alvarlegt ástand á vinnumarkaði sem miklu meiri ástæða væri til að ræða um á Alþingi.