144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við höldum áfram umræðu um þingsályktunartillögu eða breytingartillögu hæstv. ráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar, þá umhverfisráðherra, um að Hvammsvirkjun verði sett í nýtingarflokk með breytingartillögu hv. atvinnuveganefndar um fjórar virkjanir að auki, en þær hafa verið svo dregnar saman í þrjár til viðbótar í meðförum þingsins og undir umræðunni og ber að fagna því þótt sannarlega höfum við þurft með nokkrum eftirgangsmunum að kalla á breytingartillöguna. Ég hafði nokkrar væntingar um að sjá þá breytingartillögu og kannski sérstaklega líka rökstuðninginn með breytingunni vegna þess að mér þótti nokkuð forvitnilegt að sjá hvernig hægt væri að rökstyðja það að hætta við að ætla að nýta Hagavatn en halda áfram að ætla að nýta Skrokköldu til orkuöflunar og virkjanir í neðri hluta Þjórsár, vegna þess að í umsögn Skipulagsstofnunar með breytingartillögunum kemur fram við allar þessar breytingar eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Enginn rökstuðningur er settur fram með tillögunni og því liggur ekki fyrir hvort að það faglega mat sem lög um rammaáætlun gera kröfu um, og lýst er í kaflanum að ofan, liggi til grundvallar tillögunni.“

Þetta kemur fram í umsögn Skipulagsstofnunar um Holta- og Urriðafossvirkjun. Um Skrokkölduvirkjun er líka sagt að enginn rökstuðningur sé settur fram og það sama á við um Hagavatn. Þannig að stofnunin sem fer með lög um mat á umhverfisáhrifum og framkvæmd þeirra og eftirlit með þeim er þeirrar skoðunar að málið sé að því leytinu til vanreifað að ekki liggi fyrir hver rökstuðningurinn sé. Það finnst mér vera nokkurt áhyggjuefni af því að eitt er að vera ósammála um efnislegt innihald mála hér í þinginu en annað er það þegar meiri hlutinn í krafti meiri hluta síns leyfir sér að láta hjá líða að rökstyðja sína niðurstöðu. Mér finnst það vond vinnubrögð almennt að freista þess ekki að rökstyðja að minnsta kosti það sem maður leggur til nema það sé þá svo að rökstuðningurinn gildi einu, það sé í raun og veru aukaatriði hver rökin séu á bak við tillöguna og hún sé lögð fram „af því bara“ eins og stundum er sagt og ég neita því ekki að á stundum hefur það hvarflað að manni.

Mig langar til að segja og það hafa margir orðað það þannig í þessari umræðu að rammaáætlun sé dýrmætt ferli og eitt af því sem sé skylda okkar í þeirri umræðu og afgreiðslu sem fram undan er að við varðveitum ferli rammaáætlunar vegna þess hversu langa sögu það á og hversu langt aftur það nær, þess vegna höfum við nokkrar skyldur við það ferli. Það snýst um að bera saman verndargildi og nýtingargildi til orkuöflunar allmargra svæða undir hverjum kafla rammaáætlunar. Nú erum við sem sagt undir 3. áfanga rammaáætlunar sem stendur núna yfir og verkefnisstjórnin hefur fjögur ár hið mesta til þess að ljúka sínu verkefni og verkefnisstjórnin hefur sem sagt haldið utan um það þannig að það séu 26 kostir.

Umræðan hefur að mörgu leyti breyst á allra síðustu missirum hvað þetta varðar. Umræðan hefur breyst í áttina að grænni sjónarmiðum að sumu leyti. Þess vegna má fullyrða með réttu að þessi mikli kraftur sem kemur bak við breytingartillögu atvinnuveganefndar og það mikla valdbeitingaryfirbragð sem er á þeirri tillögu er á skjön við almenna græna bylgju í samfélaginu. Það má segja að nánast allir flokkar séu farnir að átta sig á því að við leggjum meiri áherslu á græn sjónarmið og meiri áherslu á umhverfissjónarmið í öllum okkar ákvörðunum. Það er breyting frá því sem var bara fyrir örfáum árum síðan og þess vegna er þessi tillaga dálítið eins og maður sé í tímavél, sé einhvern veginn að líta inn um glugga aftur til fortíðar. Mönnum er auðvitað nokkur vorkunn þegar þeir hafa tileinkað sér orðræðu um atvinnulíf, vöxt, framfarir, uppbyggingu o.s.frv. á þeim tímum þegar sett var samasemmerki milli þeirra hugtaka annars vegar og hins vegar nánast takmarkalausrar virkjunar náttúruauðlinda. En það er jafn sorglegt fyrir það að horfast í augu við að þessi sannfæringarkraftur sem er aftan úr öðrum tíma skuli fá þetta mikinn byr í þinginu. Ég verð að segja að ég hef áhyggjur af því vegna þess að ég er svo sannfærð um að þetta er tímaskekkja, að breytingartillaga meiri hluta atvinnuveganefndar er tímaskekkja.

Þess er skemmst að minnast að umræðunni um verndargildi hálendisins og víðernanna á hálendinu hefur vaxið mjög ásmegin. Þegar skoðanakannanir eru gerðar á því hversu mikið gildi víðernin hafa í hugum Íslendinga þá erum við að tala um mjög stóran meiri hluta þjóðarinnar sem er þeirrar skoðunar að þetta séu slík verðmæti að þeim megi ekki fórna með nokkru móti. Og ekki bara verðmæti í þágu ferðaþjónustunnar heldur verðmæti í þágu framtíðarinnar, vegna þess að þar erum við með einhvers konar náttúruverðmæti sem eiga sér ekki hliðstæðu og bara þess vegna höfum við ekki rétt á því að nýta orkukosti á því svæði.

Þetta er í sjálfu sér ný hugsun eða þ.e. það er nýtt hversu miðlæg hún er orðin. Ég minnist þess af því að hv. þm. Elín Hirst er hér í salnum að hún skrifaði ágæta grein í Fréttablaðið nú í vetur um mikilvægi þess að vernda víðernin og hálendið. Það eru ekki margar raddir úr Sjálfstæðisflokknum eða úr Framsóknarflokknum samhljóma þeirri rödd, en þær eru sannarlega til. Þess vegna, svo maður setji nafn og kennitölu á þessa umræðu undir því sem hér er rætt, gengur ekki að setja Skrokköldu í nýtingarflokk, þó ekki væri nema bara vegna þess að við höfum ekki rætt það sem sjálfstætt viðfangsefni, ekki undir umræðunni um rammaáætlun, ekki undir umræðunni um náttúruverndarlög, heldur undir því sjálfstæða viðfangsefni hvaða skyldur höfum við núlifandi kynslóðir við það að varðveita hálendið og víðernin fyrir komandi kynslóðir og í þágu náttúrunnar sjálfrar. Við höfum ekki tekið þá umræðu. Við erum alltaf að taka það undir einhvers konar nýtingarhorni, nýtingar- eða verndarvinkli, átökum milli þessara tveggja sjónarmiða.

Ég fullyrði að þessi sjónarmið eru ekki undir í nægilega ríkum mæli þegar Skrokkölduvirkjun er gerð að tillögu í breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar vegna þess að það bólar ekkert á þeim rökstuðningi að takast á við þann veruleika að Skrokkölduvirkjun skaði víðerni hálendisins. Það er ekki ávarpað á nokkurn hátt í breytingartillögu meiri hlutans, heldur látið eins og það skipti ekki máli. Það er veruleiki sem við horfumst í augu við þegar við fáum hérna listana af virkjunarkostum að það gengur ekki að leggja að jöfnu virkjunarkost á mjög röskuðum svæðum og algjörlega óröskuðum svæðum. Það liggur í hlutarins eðli að þetta verður ekki lagt að jöfnu. Þetta eigum við eftir að ræða. Skipta ósnortin víðerni máli bara sjálfra sín vegna? Þetta þurfum við að ræða.

Síðan þurfum við líka að komast að niðurstöðu um það hvort þau rök sem lögð hafa verið fram varðandi neðri hluta Þjórsár og lúta að villta laxastofninum þar séu nægilega sterk til þess að við höldum áfram að taka mið af þeim þangað til efanum hefur verið eytt. Ætlum við bara að segja: Þetta er fullrannsakað að mínu mati, þetta er fullrannsakað að mati hv. þm. Willums Þórs Þórssonar eða einhvers annars hér, þetta er nægilega rannsakað og ég ætla að taka ákvörðun um að Urriðafoss verði virkjaður og sitja svo uppi með það í einhverri óskilgreindri framtíð að valda varanlegum skaða á stærsta villta laxastofni í Norður-Atlantshafi? Erum við tilbúin í það? Það er í raun og veru hinn áþreifanlegi veruleiki sem er undir við þetta mál.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu að þessu sinni. Þetta voru ekki nema 10 mínútur og mér sýnist ég eigi efni í fleiri ræður svoleiðis að ég bið um að verða sett aftur á mælendaskrá.