144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:48]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé mikilvægt að ræða þetta alveg hreint út, ég verð var við það á meðal þingmanna stjórnarmeirihlutans að þeir upplifa sig eiginlega sem fórnarlömb í þessu af því að Vinstri græn muni aldrei gefa sig og þess vegna verði þessir stjórnarflokkar nú þegar þeir ráða að nota tækifærið til þess að koma þessu í gegn. Ég er farinn að skynja þennan málflutning mjög sterkt. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að minna á það í umræðu um rammaáætlunarferlið að efnislega niðurstaðan úr uppröðun virkjunarkosta verður líklega aldrei þannig að allir séu sáttir. Ég var ekkert sáttur við virkjanirnar á Reykjanesi. Það stóð miklu meiri styr um þá virkjunarkosti á síðasta kjörtímabili en um neðri hluta Þjórsár í raun og veru. En hins vegar komst verkefnisstjórnin að þeirri niðurstöðu að það væri í lagi að setja þá kosti í nýtingarflokk. Það vill gleymast í þessu að það var fullt af fólki sem þurfti að (Forseti hringir.) sætta sig við það. Fyrst vinstri græn fá þessa pillu á sig þurfa þau kannski að fullvissa fólk um að það er borin virðing fyrir ferlinu. Og ef vinstri græn eru reiðubúin að bera virðingu fyrir því og Björt framtíð líka, eiga þá ekki allir aðrir að gera það?

(Forseti (SJS): Forseti biður hv. þingmann velvirðingar. Það er enn smá ólag á tímastillingunni hjá okkur en við reynum að sjá til þess að menn fái þann tíma sem þeim er ætlaður.)