144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil ekki endilega persónugera þann vanda sem við sitjum uppi með í þinginu í hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Hann hefur þó farið fyrir þeim hópi sem hefur lagt breytingartillöguna til og hefur rökstutt hana öðrum fremur hér. Eins og kom fram í stuttri ræðu minni áðan þá er því ekki að leyna að sá rökstuðningur á betur heima upp úr miðri 20. öld vegna þess skilnings sem þær ræður endurspegla á atvinnulífi, framförum, möguleikum fyrir ungt fólk, hjólum atvinnulífsins o.s.frv. Það er eins og viðkomandi hv. þingmaður og þeir sem aðhyllast tillöguna hafi ekki uppfært sig yfir á orðræðu og áherslur 21. aldarinnar. Það er áhyggjuefni því að þar undir er líka skilningurinn á mikilvægi ósnortinna víðerna.