144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að það væri eins og við værum í tímavél. Það er kannski ekki skrýtið því að við búum hér við ríkisstjórn sem lítur helst til fortíðar og lýtur lögmálum gömlu helmingaskiptareglunnar. Þeim er tíðrætt um pólitísk hrossakaup. Það er svo mikilvægt að rifja það upp hér reglulega í umræðunni því að það er svo mikið þrástef … [Símhringing í þingsal.] Afsakið, ég truflaðist af þessum síma. — Þetta er pólitískt þrástef. Hvernig fóru þessi meintu hrossakaup fram? Voru teknar ákvarðanir um að setja kosti sem áttu að fara í nýtingu í vernd eða var tekin ákvörðun um að taka kosti sem áttu að fara í vernd og setja þá yfir í nýtingu? Gæti hv. þingmaður rifjað þetta upp fyrir mér?