144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:54]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að geta gripið hér til nefndarálits með breytingartillögu frá meiri hluta atvinnuveganefndar sem er einmitt undirrituð af hv. þm. Jóni Gunnarssyni, Haraldi Benediktssyni, Ásmundi Friðrikssyni, Páli Jóhanni Pálssyni, Þorsteini Sæmundssyni og Þórunni Egilsdóttur sem hér situr. Á bls. 2 kemur fram, með leyfi forseta:

„Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða“ — það er verið að ræða nákvæmlega ferlið sem hv. þingmaður vísar til — „í lögunum voru drög að gildandi tillögu til þingsályktunar send til umsagnar sumarið 2011 af hálfu þáverandi iðnaðarráðherra. Með hliðsjón af athugasemdum sem bárust í umsagnarferlinu voru gerðar nokkrar breytingar á drögunum áður en tillaga til þingsályktunar var lögð fyrir þingið.“

Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögunum — hv. þingmenn verða að gæta að einhverju samræmi í málflutningi sínum. Nefndasvið var væntanlega hv. atvinnuveganefnd innan handar og þá gengur ekki fyrir þingmenn með einhverja sjálfsvirðingu að leggja fram nefndarálit og halda því fram að pólitísk hrossakaup hafi legið til grundvallar einhverju sem var undirbyggt með gildandi lagabókstaf.