144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:57]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi um hina lagalegu óvissu. Ég vil segja fullum fetum að tillaga hv. atvinnuveganefndar, eða meiri hluta hennar, sé ólögmæt. Hún er að minnsta kosti byggð á svo ótraustum lögfræðilegum grunni að hún í raun og veru stefnir þeim virkjunarkostum sem verða þannig samþykktir, með þeim umbúnaði, í endalausar kærur og upplausnarástand. Ég hef ekki þá trú að Landsvirkjun hafi áhuga á því að sitja uppi með slíka ferla og mikilvægt sé fyrir orkufyrirtækin að það sé óumdeildur traustur lagalegur grunnur sem byggt er á.

Af því að hv. þingmaður spyr hvað mætti skoða betur í núverandi lagaumbúnaði þannig að til betri vegar horfði þá held ég í fyrsta lagi að mikilvægt sé að styrkja mjög hver staða þingsins er gagnvart tillögum verkefnisstjórnarinnar á hverjum tíma (Forseti hringir.) og til þess að koma í veg fyrir togstreitu eða ágreining um það hvað sé í gildi og hvað ekki.