144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:01]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur kærlega fyrir ræðuna. Í henni kom ýmislegt fram þar sem ég get verið sammála og annað þar sem ég get verið henni ósammála. En það skiptir ekki höfuðmáli þegar svo mikilvægt mál er á dagskránni. Það skiptir höfuðmáli að ég ber virðingu fyrir skoðunum hennar þótt ég sé ekki sammála þeim og er alveg tilbúin til að hlusta á þær. Ég er sammála því sem hún segir að náttúruvernd í íslenskri pólitík er algjörlega þverpólitískt fyrirbæri. Hún er ekki einkamál einhverra ákveðinna flokka á þingi. Ég vil einmitt styðja við þá þróun að svo verði áfram.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, í ljósi þess hve möguleikar Íslendinga eru gríðarlegir í að verða forustuland með græna orku, hvað hún sjái fyrir sér að við getum gert til að svo megi verða.