144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit að það er ekki til siðs að skella spurningu á þingmann þegar hann er í raun og veru brunninn inni eins og sagt er. En mér finnst þingmaðurinn kannski skulda okkur svarið við þeirri spurningu hvort hún telji það að virkja í Skrokkölduvirkjun samræmist sjónarmiðunum um mikilvægi ósnortinna víðerna, af því að það er í raun og veru kannski spurningin sem hangir í loftinu.

Varðandi síðan framlag okkar að því er varðar græna orku þá er ég þeirrar skoðunar að Ísland geti hreinlega sagt að á árinu 2030 eða 2050 verðum við kolefnisfrítt land, kolefnishlutlaust land þar sem við erum ekki bara að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda að einhverju marki og í svipuðu marki og gerist í löndunum í kringum okkur, heldur erum við að stefna að því að verða kolefnisfrítt land. Það getum við fyrst og fremst með því að draga úr losun í samgöngum. Það er okkar stærsta sóknarfæri, bæði með því að breyta um orkugjafa í samgöngum, en ekki síður með því að þétta byggð og auka möguleika hjólandi, gangandi og almenningssamgangna.