144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í grundvallaratriðum finnst mér að áður en við fórum að ræða þetta mál, áður en þessar breytingartillögur voru lagðar fram og í raun áður en þingsályktunartillaga kom frá hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hefðu menn, ef þeir voru ósáttir við ferlið eins og það var á síðasta kjörtímabili, átt að byrja á því að svara þeirri spurningu og leggja síðan fram frumvarp þar sem þeir færu fram á að ferlið yrði lagað. Þá hefðum við getað átt samtal í formi þriggja umræðna um lagafrumvörp og útkljáð þá spurningu strax. Það held ég að hefði verið betra fyrir alla, þar á meðal þá sem vilja virkja.

Það er annað. Ég stíg ekki í pontu sem einhver sérstakur andstæðingur virkjana. Stundum er ég hlynntur þeim og stundum er ég á móti þeim. En jafnvel ef maður er hlynntur virkjunum þá hlýtur maður að vilja að sátt sé um ferlið.

Mér finnst þessi nálgun kolvitlaus. Það eru margar hugmyndir sem ég get ímyndað mér að eigi heima í tilteknum lagabreytingum, t.d. ein sem er kannski í róttækari kantinum, að hafa fleiri flokka, ekki bara nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk heldur einhvers konar millibilsflokka. Það er ein hugmynd. Það er svo sem misjafnt hvernig fólki líst á það. Hv. þáverandi þm. Sigurði Inga Jóhannssyni leist ágætlega á það og lagði það reyndar til á sínum tíma í nefndaráliti 2. minni hluta atvinnuveganefndar.

Annað sem er kannski hægt að gera en ég veit ekki hversu flókið það yrði með hliðsjón af því hvernig kerfið virkar, það er að umhverfismat liggi fyrir áður en virkjunarkostir eru settir í nýtingarflokk. Núna á það sér stað eftir á, sem þýðir að virkjunarkostir eru settir í nýtingarflokk og síðan kemur umhverfismat. Kannski er þetta röng röð. Það þyrfti að skoða það betur.

Annað sem hefur komið fram frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni er spurningin um hvort ekki sé hægt að hafa rannsóknir undir eftirliti á virkjunarkostum í biðflokki. Þetta er umdeilt vegna þess að fólk vill meina að um leið og rannsóknir fara fram séu menn búnir að ákveða sig. Ég er ekki alveg sammála því, alla vega ekki á þessari stundu. Það er önnur hugmynd.

Útkljá þarf hlutverk umsagnarferlisins sem var umdeilt á seinasta kjörtímabili. Síðan þarf að útkljá spurningar um endurnýjun umhverfismats áður en virkjunarkostir (Forseti hringir.) eru settir aftur í bið eins og var gert á síðasta kjörtímabili.

Allt þetta eru spurningar sem við ættum að vera (Forseti hringir.) að ræða en getum ekki fyrr en þetta mál er sett (Forseti hringir.) í bið.