144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig grunar að hér sé á ferðinni — að fíllinn í herberginu sé sá almesti þrælapískari sem ég veit um — stolt, ég held að menn séu of stoltir á þessum tímapunkti til að bakka með þessar hugmyndir. Kannski er það eitthvað okkur að kenna sem höfum talað heldur harkalega gegn þessu, það má vera, en við megum hins vegar ekki láta stoltið stjórna þessu þingi. Það kom fram bara í morgun í hv. atvinnuveganefnd, ef ég skil rétt þessar tímasetningar sem virðast gera þetta að algerum óþarfa núna, eins og það hafi ekki þannig séð legið ljóst fyrir, alla vega gat enginn svarað því áður hvers vegna lægi á þessu nema út af kjarasamningum einhvern veginn í ósköpunum, því var nú auðveldlega svarað með því að kalla það þvælu sem það er, það er bara þvæla. En stoltið kom í ljós í morgun í hv. atvinnuveganefnd. Við erum komin á þriðju viku í umræðunni hér og allt komið í lás og þá er svolítið erfitt fyrir menn kannski að reyna að taka sönsum út frá þeim upplýsingum sem hér berast. Þetta er auðvitað mannlegt tilfinningalegt vandamál sem maður mundi óska að hefði ekki svona sterk áhrif á þingstörfin, en það er ekki hægt annað þegar Alþingi er samansett af fólki. Það er meðal annars af þeim ástæðum sem mér þykir svo mikilvægt að það sé leið fyrir þjóðina sjálfa, ekki bara minni hluta þingsins, heldur þjóðina sjálfa og minni hluta þingsins, að skjóta hlutum til þjóðarinnar til að menn þurfi, gjörið svo vel, að sjá í gegnum svona tilfinningar þegar þær þvælast fyrir eins og stoltið núna.

Til að svara hv. þingmanni, mig grunar svolítið að þessi asi hvað varðar tímasetningar hafi eitthvað að gera með ótta við næstu kosningar, þ.e. að næsti meiri hluti gæti einhvern veginn spillt fyrir ferlinu. Þá erum við aftur komin í veigameiri spurninguna, sem við ættum að vera að tala um hér í kvöld, þ.e. hvernig ramminn á að virka til framtíðar óháð því hvað einstakri ríkisstjórn finnst hverju sinni. Það er stærri spurning sem við ættum að vera að ræða.