144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:35]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni góð svör. Hv. atvinnuveganefnd hefur sæst á að bíða með Hagavatn og draga þann kost út úr þeim breytingartillögum sem upphaflega lágu fyrir.

Í seinna andsvari langar mig að víkja að efnislegri hlið málsins og spyrja hv. þingmann um hans viðhorf gagnvart uppbyggingu í orkufrekum iðnaði.

Nú hefur það komið fram í umræðunni að mörg verkefni eru undir, mikilvæg íslensku hagkerfi og atvinnulífi. Nefnd hafa verið fyrirhuguð verkefni í Helguvík og á Grundartanga. Að virkja í Þjórsá er algert lykilatriði um framgang þeirra fyrirliggjandi verkefna. Hver eru viðhorf hv. þingmanns til þessarar framtíðaruppbyggingar og þeirra verkefna sem tilheyra orkufrekum iðnaði?