144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil gera grein fyrir því að boðaður hefur verið fundur þingflokksformanna í kvöldverðarhléi sem verður væntanlega um sjö- eða hálfáttaleytið. Ég vænti þess og vona að þá sé komið að því að við getum átt einhver samtöl, vonandi efnisleg að einhverju leyti um það hvernig verður lagt upp í aðdraganda þingloka en ekki síður um þá óþolandi stöðu sem við búum við núna og ítrekað hefur verið bent á. Við höfum oft kvartað í þingsal yfir því hvernig starfi þingsins vindur fram og hversu illa maður getur undirbúið sig frá degi til dags. Núna erum við í lausu lofti með hvern einasta dag sem fram undan er þannig að það er eitt af því sem hlýtur að verða rætt á fundi þingflokksformanna til að reyna að ná einhverjum lágmarksramma utan um þingstörfin hér næstu daga.