144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:45]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með hv. formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Katrínu Jakobsdóttur, um að ótækt sé að nefndatafla sé ekki í gangi. Í morgun voru tveir fundir á sama tíma, þ.e. tvær nefndir sem ég á sæti í voru að funda. Við því má búast næstu vikur, eða hversu lengi sem þinghald á að standa, eins óljóst og það nú er, að þeir sem sitja í fleiri en einni nefnd, sem alla jafnan eru til skiptis á vikudögunum, geti lent í því dag eftir dag að þurfa að funda á sama tíma. Þetta eru ekki viðhlítandi vinnubrögð fyrir utan, eins og við höfum margoft komið inn á, að vita ekki dagskrá morgundagsins fyrr en við förum heim að sofa að kvöldi, sem undanfarið hefur verið fremur seint. Það er auðvitað mjög óheppilegt.

Ég lít þannig á, eins og ég sagði fyrr í dag, að þetta sé biðsalur en ekki þingsalur og á meðan við bíðum eftir því að málin sem ríkisstjórnin á eftir að vinna, ganga frá og samþykkja í eigin ranni komi fram erum við látin þvæla um þetta mál.