144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:51]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég þurfti nú að láta segja mér það þrem sinnum að á fundi forseta með hv. þingflokksformönnum hefði ekkert verið rætt um neinn ramma þingstarfanna fram undan, þ.e. í raun og veru væru þingstörfin fram undan bara hvítt blað, nefndataflan hefði ekki verið sett aftur í samband og það væri alger óvissa. Þó að það sé óvissa um þetta mál hélt ég samt að settur yrði einhver rammi um þingstörfin fram undan og ég mun líklega þurfa að láta segja mér það þrem sinnum að hér standi ég í pontu Alþingis til að koma með athugasemd við þetta af því að þetta er ekki rætt og klárað þar sem það á heima, sem er auðvitað á fundum hæstv. forseta með hv. þingflokksformönnum. Auðvitað eigum við ekkert að þurfa að standa hér og kvarta undan þessu. Það er algerlega fáránlegt, herra forseti. En þannig er það nú samt. Ég bara trúði ekki mínum eigin augum þegar ég sá að þetta var svona, að ekki var gert ráð fyrir skipulegum nefndafundum þrátt fyrir að ekki væri verið að reyna að klára þinghaldið, þrátt fyrir að búið væri að fresta því inn í framtíðina og enginn vissi neitt um rammann. Ég geri þá kröfu, herra forseti, að við fáum einhvern ramma og helst að við þurfum ekki að tala um hann hér því að það er algerlega fáránlegt.