144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:53]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kem hingað upp enn og aftur til að hvetja hæstv. forseta til að taka þetta mál af dagskrá. Þetta er orðin frekar lúin plata. Kallað var eftir því í síðustu viku um fundarstjórn forseta, þessum geysivinsæla fundarstjórnarlið að forsætisráðherra kæmi hér í salinn og segði okkur hvað stæði til. Ég er nú eiginlega farinn að fallast á að við ættum að fá hann hingað til að tala til þjóðarinnar einhvern veginn öðruvísi en með því að vera alltaf með skæting. Eins og ég kom að hér fyrr í dag þá er hann forsætisráðherra allrar þjóðarinnar, hann er það og hann á að leiða þessa þjóð áfram. En hér logar allt í illdeilum og fólk farið að tínast í þúsundatali út á Austurvöll þannig að þetta er háalvarlegt ástand. Við þurfum á því að halda að æðstu menn þjóðarinnar leiði okkur áfram en sundri okkur ekki í hvert einasta skipti sem þeir opna munninn. Ég krefst þess að ráðamenn ríkisstjórnarinnar komi og leysi þessi mál.