144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:01]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil koma hingað aftur og ítreka að ég vil að hæstv. forseti Alþingis slíti þessari umræðu. Ég get alveg tekið undir það að ég var fullorðhvass áðan þegar ég talaði um að hæstv. forsætisráðherra væri með skæting. (Gripið fram í: Nei.) Það er kannski fulldjúpt í árinni tekið, (Gripið fram í.) en orðræða hans í samfélaginu, hvort sem það er á flokksþingum, í þingsal eða í viðtölum við fjölmiðla, hefur alls ekki gert neitt til að lægja öldurnar í salnum. Því miður virðist það vera þannig, sem er mjög sárgrætilegt. Eins og ég hef sagt áður er hann forsætisráðherra allrar þjóðarinnar. Hann á að tala við þjóð sína á þeim nótum. Það finnst mér og hann á að nýta sér þingsalinn til þess, en svo hefur hann líka mjög greiðan aðgang að fjölmiðlum. Í þjóðfélagi þar sem allt logar stafna á milli, því miður, og skelfileg verkföll skella á þá finnst mér að æðstu menn þjóðarinnar, sem voru kosnir til að leiða hana, eigi að lægja öldurnar og tala beint til hjarta þjóðarinnar.

Þeir töluðu úti í dag, sögðu okkur hvað væri að. Hlustum á þetta fólk. Það á alveg eins við um rammaáætlun. Hlustum á fólkið austur í sveitum sem ekki vill láta virkja á jörðunum sínum.