144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér töluðu á undan og fagna þessari fundarstjórn mjög, ég er mjög ánægður með hana, virðulegi forseti. Ég vona og ætlast reyndar til þess af okkur öllum að við nýtum þetta tækifæri til þess að líta fram á veginn með því hugarfari að reyna að greiða hér fyrir þingstörfum og reyna að halda hlutunum í lagi. Það mun ekki standa á þeim sem hér stendur að tala um önnur mál og taka þátt í meðferð þingsins á öðrum málum án þess að þetta þvælist fyrir okkur á meðan á þessu stendur. Ég átta mig á því að málið getur komið til umræðu aftur, en ég fagna því mjög að hér sé gert hlé á umræðu um það þannig að við getum tekist á við önnur mál. Ég vona að við nýtum öll tækifærið til þess að reyna að láta það hafa sem minnst áhrif á vinnu okkar á meðan þetta hlé stendur yfir.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.