144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Páll Jóhann Pálsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og þakka henni jafnframt fyrir þátt hennar í þessum breytingum. Ég veit ekki betur en að einmitt í umræðunni um rammaáætlunina hafi stundum verið vitnað til þessa máls þar sem meiri hlutinn kom til móts við önnur sjónarmið eins mikið við töldum okkur geta gert.

Skipulagsmál sveitarfélaganna eru viðkvæm mál og með þessum breytingartillögum er reynt að fara bil beggja, aðeins að koma til móts við sveitarfélögin, en okkur er öllum ljóst hver vandinn hefur verið hingað til. Flutningskerfið hefur staðið iðnaðaruppbyggingu fyrir þrifum á vissum landsvæðum þar sem flutningskerfið hefur verið kannski — ja, er ekki verið að tala um 100 megavött sem flutningskerfið þolir? En það þyrfti að vera alveg tvisvar sinnum ef ekki þrisvar sinnum meira en það. Ég get ekki svarað því öðruvísi en þannig að við erum að reyna að fara bil beggja, en við töldum að ef við hefðum farið (Forseti hringir.) miklu lengra værum við kannski enn í sömu sporum.