144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:48]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er gott að vera komin aðeins áfram í umræðum um þingmál og vera komin í þetta mál, þótt það eigi auðvitað margt sammerkt með málinu sem við vorum að fjalla um síðustu daga og vikur, þ.e. hvernig við göngum um landið okkar og hvernig við ákvörðum að byggja upp flutningskerfi innan lands til að flytja raforkuna landshluta á milli og hvaða tæki við notum til þess.

Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta atvinnuveganefndar og ætla að fara yfir það í upphafi. Það hljóðar svo:

Minni hlutinn telur þær tillögur sem meiri hlutinn hefur lagt til við 3. umr. um málið til bóta og tekur undir margt í nefndaráliti hans. Hins vegar telur minni hlutinn að styrkja mætti önnur atriði og bendir á að kerfisáætlun er enn gert afar hátt undir höfði í frumvarpinu.

Við umfjöllun um málið í nefndinni lagði minni hlutinn til að komið yrði á þverpólitískum samráðsvettvangi sem hefði eftirlit með undirbúningi og vinnu kerfisáætlunar, a.m.k. þeirrar fyrstu. Á slíkum vettvangi væri unnt að sníða mögulega vankanta af kerfisáætlun. Minni hlutinn bendir til dæmis á að í 5. gr. laga nr. 74/2012, um veiðigjöld, er kveðið á um samráðsnefnd um veiðigjöld sem samanstendur af þingmönnum úr öllum flokkum og fjallar hún um fyrirhugaðar ákvarðanir veiðigjaldsnefndar um sérstakt veiðigjald. Meiri hlutinn féllst ekki á þessa tillögu og eru það minni hlutanum vonbrigði.

Minni hlutinn telur einnig að ekki hafi verið farið nógu ítarlega yfir möguleika á að koma með ríkari hætti til móts við sveitarfélög. Fyrir liggur að gengið verður á skipulagsvald þeirra verði frumvarpið óbreytt að lögum. Þó svo að breytingartillaga meiri hlutans um að veita sveitarstjórnum aukinn tíma til að samræma skipulag sitt kerfisáætlun sé vissulega til bóta er gert ráð fyrir að fresturinn verði háður samþykki flutningsfyrirtækisins. Í reynd felst í breytingartillögunni ekkert úrræði fyrir sveitarstjórn sem er ósátt við landnotkun innan síns sveitarfélags samkvæmt kerfisáætlun.

Minni hlutinn telur að flutningsfyrirtækið hafi enn of mikla yfirburðastöðu samkvæmt frumvarpinu, jafnt gagnvart sveitarfélögum, landeigendum sem öðrum hagsmunaaðilum. Tryggja þyrfti meira jafnræði milli annars vegar hagsmuna og stöðu flutningsfyrirtækisins og hins vegar umhverfisverndarsjónarmiða, hagsmuna sveitarfélaga, landeigenda og annarra. Minni hlutinn telur miður að ekki hafi verið lögð meiri áhersla á umhverfisverndarsjónarmið. Margoft hefur komið fram að stærstur hluti ferðamanna kemur hingað til lands til að njóta óspilltrar náttúru. Þá má benda á að fyrir nefndinni var því haldið fram að það skorti alveg tilvísun til ferðamála í frumvarpinu.

Þá lýsir minni hlutinn vonbrigðum með að ekki hafi verið léð máls á breytingu á tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína sem nefndin hefur einnig haft til umfjöllunar og tengist þessu frumvarpi, það er næsta mál hér á dagskránni. Gerð er nánari grein fyrir sjónarmiðum minni hlutans í framhaldsnefndaráliti hans við það mál.

Minni hlutinn leggur jafnframt til að ákvarðanir Orkustofnunar sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en ekki úrskurðarnefndar raforkumála, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu eða breytingartillögum sem þar koma með.

Fyrir liggur að frumvarpið er aðeins innleiðing á 22. gr. þriðju raforkutilskipunar ESB en ekki tilskipuninni í heild. Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að við gerð kerfisáætlunar skuli meðal annars byggt á raunhæfum sviðsmyndum um raforkuflutning til annarra landa. Minni hlutinn telur engan veginn tímabært að lögfesta ákvæði í þessa veru hér á landi og leggur til að tilvísun í raforkuflutning til annarra landa falli brott. Ég vek athygli á þessari setningu. Minni hlutinn telur jafnvel réttara að bíða með lögfestingu þessa frumvarps og samþykkt tillögu um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína þar til þriðja raforkutilskipun ESB hefur verið tekin upp í EES-samninginn og innleidd hér á landi, í stað þess að innleiða aðeins og án samhengis við önnur ákvæði efni 22. gr. tilskipunarinnar, eins og hér er lagt til.

Undir þetta nefndarálit ritar sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, og er þar í minni hluta atvinnuveganefndar. Það kom fram í umræðu áðan að vissulega hafi tekist að gera nokkrar breytingar á þessu máli og við þekkjum að það var hér í umræðu og var tekið inn til skoðunar og náðist í ágætissamvinnu að gera breytingar á því til batnaðar. Þótt við vinstri græn teljum að ekki sé nægilega langt gengið, eins og kemur fram í nefndarálitinu, teljum við það vissulega til bóta og við beitum lýðræðinu þannig að við reynum að ná fram og sameina sjónarmið og ná fram samnefnara í þeim efnum og við höfum vægi, þótt í minni hluta séum, þegar kemur að því að gera breytingar. Við erum fulltrúar stórs hóps í landinu sem treystir okkur fyrir því að gera breytingar til batnaðar. Þótt við treystum okkur kannski ekki á endanum til að fylgja málinu til enda höfum við þó haft áhrif á það að gerðar voru jákvæðar breytingar fyrir stefnu okkar og sjónarmið þeirra sem hafa sterkar meiningar í þessum málum, en náttúruverndarsjónarmið og umhverfissjónarmið hafa komið skýrt fram í umfjöllun um þetta mál.

Það voru nokkrir punktar sem vissulega náðust fram í breytingartillögu, eins og ég nefndi, sem koma inn í breytingartillögu sem mælt var fyrir áðan af meiri hluta atvinnuveganefndar. Vil ég nefna sem dæmi að í 5. lið er tekið tillit til umhverfissjónarmiða. Okkur fannst of lítið tillit tekið til þeirra sjónarmiða í frumvarpinu. Það voru líka gerðar breytingar sem snúa að sveitarfélögunum þar sem sveitarstjórn er heimilt að fresta ákvörðun um landnotkun samkvæmt kerfisáætlun í allt að átta ár, enda séu fyrir því gildar ástæður og fyrir liggi jákvæð umsókn flutningsfyrirtækisins. Okkur þykir þetta skref í rétta átt en það að fyrir þurfi að liggja jákvæð umsögn flutningsfyrirtækisins segir auðvitað ákveðna sögu, það er á forsendum þess að tekið er tillit til vilja sveitarfélagsins, sveitarfélagið þarf að taka kerfisáætlun inn í skipulag eftir átta ár og þyrfti flutningsfyrirtækið að samþykkja að draga í land ef einhver breyting ætti að verða á því.

Enn fremur kemur fram, sem er breyting til batnaðar, að ráðherra leggur á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku og þá fáum við þetta mál inn á Alþingi eins og samgönguáætlun og byggðaáætlun og önnur slík mál sem fá efnislega umræðu á þingi. Ég tel mjög mikilvægt að aðkoma þingsins í þessu máli sé skýr og til að mynda hefur verið til umræðu hér hugsanleg lagning Sprengisandslínu og vegs yfir Sprengisand sem gæti þá orðið samhliða. Um þetta eru auðvitað mjög deildar meiningar og mikil gagnrýni uppi af hálfu náttúruverndarsinna og ferðaþjónustunnar og fólks í þjóðfélaginu almennt, svo að slíka ákvörðun er ekki hægt að taka án aðkomu Alþingis.

Í breytingartillögu meiri hlutans kemur líka fram að tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku skuli fyrst lögð fyrir Alþingi, eigi síðar en 15. október 2016. Það er mjög gott að ekki sé lengra í það en rúmt eitt og hálft ár, þá er hægt að treysta því að menn fari ekki út í að taka stórar ákvarðanir á þeim tíma heldur fjalli Alþingi um það sem liggur fyrir. Við vinstri græn teljum, eins og kom fram í nefndarálitinu áðan, að réttara sé að bíða með lögfestingu þessa frumvarps og rökstyðjum við það á ýmsan hátt. Þá vil ég vísa til þess sem hefur verið nefnt áður, að nýverið var kveðinn upp dómur Hæstaréttar, sem ég ætla, með leyfi forseta, að vísa í og fara yfir:

„Með dómi Hæstaréttar hinn 13. maí 2015 í máli nr. 53/2015 felldi rétturinn úr gildi fimm úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta sem heimilað höfðu Landsneti umráðatöku afmarkaðs svæðis innan sveitarfélagsins Voga vegna byggingar og reksturs Suðurnesjalínu 2 sem tekin hefur verið eignarnámi með úrskurðum ráðherra. Telur Hæstiréttur í dómi sínum frá 13. maí síðastliðnum að lagaskilyrði hafi brostið af hálfu matsnefndar eignarnámsbóta til að verða við beiðnum Landsnets um umráð og töku hins eignarnefnda lands. Var úrskurður nefndarinnar því felldur úr gildi.

Í dómsmálinu reyndi á ákvæði 14. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, en dómurinn virðist hafa túlkað með öðrum hætti en áður. Fjallaði dómurinn um mismunandi skilyrði eignarnáms, annars vegar almenna hagsmuni samkvæmt stjórnarskrá er ráðast jafnan af langtímahagsmunum en mat samkvæmt 14. gr. laganna á hins bóginn aðeins af sjónarmiðum þar sem hagsmunir til skemmri tíma ráða för.“

Landsnet segir um dóminn í tilkynningu frá 15. maí síðastliðnum að hann sé vonbrigði. Þá segir í yfirlýsingu af hálfu fyrirtækisins, með leyfi forseta:

„Landsnet óskaði eftir þessari umráðatöku á síðasta ári þegar áætlað var að framkvæmdir gætu hafist. Matsnefnd eignarnámsbóta hefur í sínum störfum alla jafna veitt umráðatöku vegna stórra framkvæmda, svo sem lagningu háspennulína eða vegaframkvæmda, án þess að matsferli sé lokið. Þessi heimild er í 14. gr. laga um framkvæmda eignarnáms, nr. 11/1973.“

Landsnet segir: „Sú niðurstaða vekur vonbrigði og er í raun ekki í samræmi við venjur í störfum matsnefndarinnar.“

Landvernd hefur fjallað um þennan dóm og ég tek undir álit þeirra í þeim efnum þar sem þeir segja að nauðsynlegt sé að greina áhrif dóms Hæstaréttar og þeirra efnisatriða er greinir í úrskurði Eftirlitsstofnunar ESA og ekki síst þýðingu tímamótaúrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir fyrirliggjandi frumvarp og þingsályktunartillögur áður en lengra er haldið í meðferð málanna á Alþingi og nauðsyn þeirra.

Nýverið, eftir að þetta mál var afgreitt til 3. umr., birti Eftirlitsstofnun EFTA ákvörðun sína. Það var 6. maí 2015 og ákvörðun EFTA er frá 25. mars 2015 og er í máli nr. 65/15 COL varðandi raforkusamning Landsvirkjunar og flutningssamnings Landsnets við United Silicon í Helguvík. Í ákvörðuninni kemur fram að Landsnet leggur 132 kílóvatta jarðstreng, sem verður um 9 kílómetra langur, að Helguvík. Af ákvörðuninni má ráða að sá jarðstrengur eigi að anna flutningi til umrædds kísilvers, sem og annarra stórnotenda, og einnig almennings, því að hann mun samkvæmt ákvörðuninni tengjast dreifiveitunni HS Veitum. Nú mætti spyrja sig hvaðan Landsneti kæmi heimild til að leggja slíkan jarðstreng, ef rétt væri að fyrirtækinu væri það ekki heimilt að óbreyttum lögum, svo sem oftsinnis hefur komið fram í málflutningi þeirra sem segja breytingu á raforkulögum og setningu stefnu um raflínur nauðsynlegar til að Landsnet leyfi lagningu slíkra háspennustrengja. Sýnast atvik þau sem birtast í ákvörðuninni benda til að það kunni að vera málum blandið sem haldið hefur verið fram um nauðsyn lagasetningar og þingsályktunar um stefnu stjórnvalda varðandi raflínurnar, sem við fjöllum betur um hér á eftir, og ástæða er til að grafast fyrir um hverju það sætir.

Landvernd kemst að þeirri niðurstöðu að rétt sé að Alþingi fresti afgreiðslu, bæði þessa máls varðandi kerfisáætlun og því máli sem við fjöllum um á eftir varðandi raflínurnar, og að atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis afli í sameiningu lögfræðiálits um ofangreint mál til að ganga úr skugga um áhrif framangreindra úrskurða og dóms í þessu máli. Ég held að það sé alveg þess virði að ígrunda hvað þessi dómur og þetta álit Eftirlitsstofnunar EFTA felur í sér og fá góða skoðun á því. Þetta mál hleypur ekki neitt frá okkur og mikilvægt er að þarna sé staðið vel að verki og menn fari ekki út í eitthvað sem Alþingi fær síðan í fangið aftur. Það hafa auðvitað frá upphafi þessa máls komið fram aðvörunarorð, þó að okkur hafi tekist að bæta málið. Ég tel það mjög gott en sum mál eru þannig vaxin að þau þurfa stundum að liggja og batna við það. Menn tala oft um að sofa á einhverju þegar það þarfnast ígrundunar við og ég held að þetta mál sé þannig að það sé málinu til góðs og það þroskist áfram með því að skoða vel það sem ég fór yfir varðandi dóm Hæstaréttar og álit Eftirlitsstofnunar EFTA. Við umfjöllun á þessu máli kom fram mikil gagnrýni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi skipulagsvald þeirra og fullt forræði þeirra á skipulagsmálum. Ég tel mjög mikilvægt varðandi skipulagsmál sveitarfélaga að ekki verði gengið á þann rétt, að þau hafi skipulagsvald og ekki sé verið að breyta eða ganga á skipulagsvaldið með þá kerfisáætlun. Það þurfa að vera einhverjir varnaglar. Eitt af því sem við tínum hérna til er að hægt sé að skjóta úrskurði til umhverfisráðuneytisins.

Í breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar fjalla þeir um að það sé kæruleið til raforkuyfirvalda, úrskurðarnefndar raforkumála. Í nefndaráliti okkar viljum við að þetta fari til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en ekki úrskurðarnefndar raforkumála, eins og gert er ráð fyrir. Landvernd hefur verið sá aðili sem hefur farið mjög djúpt í þau mál og getum við þakkað fyrir að eiga slík félagasamtök sem láta sig þau mál varða og greina þau og fara djúpt ofan í saumana á þeim. Ekki er hægt annað en að þakka fyrir að þar sé staðinn dyggur vörður um umgengni við náttúruna og hvernig við ætlum að byggja upp flutningskerfi okkar í kringum landið, hvort við ætlum að spilla hálendinu með línulögnum eða hvort við ætlum að byggja upp flutningskerfi hringinn í kringum landið, sem er vissulega víða orðið lélegt. Við vitum öll og þekkjum að það er mjög lélegt víða, en það er ekkert sem mælir á móti því að farið sé í uppbyggingu á flutningskerfinu sjálfu, hringtengingunni, kringum landið. Það er ekkert sem bannar það. Þannig er það styrkt svo það geti tryggt afhendingaröryggi rafmagns sem er víða mjög slæmt, ég tala nú ekki um þar sem ég þekki vel til, á Vestfjörðum. Þar er víða pottur brotinn í þeim efnum og þyrfti virkilega að leggja fjármuni í að byggja upp flutningskerfið. Það strandar ekki á því að fá samþykkta þessa kerfisáætlun. Það truflar ekki að hægt sé að taka fyrir þá kafla þar sem veikasti hlekkurinn er víða í hringtengingu okkar í kringum landið. Við þekkjum það að byggðalínan veitir ekki alltaf það öryggi sem menn vilja og víða kemur það niður á möguleikum á uppbyggingu fyrirtækja, í mörgum landshlutum. Menn hafa talað um að ekki sé hægt að fá næga orkuuppbyggingu á bræðslum eða uppbyggingu fiskimjölsverksmiðja á norðausturhorninu og það er strax hægt að ráðast í lagfæringar á flutningskerfinu á því svæði til að auka afhendingaröryggi rafmagns. Þetta er ekki eitthvað sem stoppar af að hægt sé að bæta úr því svo það svæði geti byggt upp fyrirtæki sem eru að stækka á því landshorni.

Svo stöndum við frammi fyrir því til að mynda á Vestfjörðum að þar eru þessi mál því miður, ég segi ekki í algeru lamasessi en í mjög í slæmu ástandi. Menn búa við það, á öllum Vestfjarðarkjálkanum, að það getur jafnvel verið rafmagnslaust stóran hluta sólarhrings, eins og gerðist í fyrra, og netsamband og annað liggur niðri. Verkefnin eru næg fyrir hendi þó að menn fari ekki út í það strax að samþykkja þessa kerfisáætlun, sem ég tel að þurfi að gaumgæfa miklu betur miðað við þá dóma sem hafa fallið og ástæða sé til að við látum skoða enn betur af sérfræðingum og fáum lögfræðiálit á dóminum og áliti EFTA og að þetta fari til umhverfisnefndar og atvinnuveganefndar, eins og ég nefndi áðan.

Landvernd segir, með leyfi forseta: „Núverandi löggjöf veitir Landsneti allar heimildir til þess að taka fullt tillit til umhverfissjónarmiða, og skyldar fyrirtækið beinlínis til þess.“ Þá er bent á 1. gr. raforkulaga um að taka eigi tillit til umhverfissjónarmiða að öðru leyti. Bent er á 73. gr. EES-samningsins og á tilskipun EES í bæði umhverfismálum og raforkumálum og vísað til 9. gr. núgildandi raforkulaga, heimildar Orkustofnunar til að binda leyfið skilyrðum er lúta að umhverfisvernd. Auk þess segir að ákvæði 1. mgr. 9. gr. raforkulaga, um að flutningskerfið skuli byggja upp á hagkvæman hátt, sé þessu auðvitað ekki til fyrirstöðu og banni engar tilteknar lausnir heldur offjárfestingu sem yrði velt óhindrað út í gjaldskrá. Kjarni allrar löggjafarinnar á EES-grunni sé sá að tekið skuli ríkt tillit til umhverfismála. Ætla ég að hafa það sem lokaorð mín í þessu nefndaráliti og ræðu.