144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:25]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Umhverfissjónarmiðunum var ekki gert hátt undir höfði í málinu eins og það kom inn fyrst. Það er eitt af þeim málum sem var þá sett inn í frumvarpið með breytingartillögu og það er vel. En að okkar mati eru enn ýmsir vankantar fyrir utan þann dóm sem er nýfallinn og við teljum að eigi að skoða betur hjá Hæstarétti og álit EFTA-dómstólsins.

Eitt af því sem við lögðum áherslu á var að fá samráðsnefnd. Við höfum samráðsnefnd varðandi veiðigjöldin. Væri ekki gott að einhverjir frá öllum flokkum kæmu að þessu máli áður en það kæmi inn til þingsins? Ég held að það gæti verið miklu sterkara og öflugra að gera það þannig, að við værum ekki alltaf að taka slaginn hér á þingi. Í svona stóru máli sem lifir margar ríkisstjórnir af — þetta er til langrar framtíðar — ættu fulltrúar frá öllum flokkum að fá aðkomu í einhvers konar samráðsnefnd sem væri starfandi og gæti haft áhrif til góðs. Menn væru þá líka að létta vinnuna hér á Alþingi með því að koma þeim sjónarmiðum á framfæri fyrr í vinnunni og kannski einhverjum breytingum strax að.

Það er margt sem hefur verið lagfært, vissulega. Til dæmis má nefna ferðamálin, það skortir alveg á tilvísun í ferðamál í frumvarpinu. Ferðaþjónustan er nú orðinn stærsti gjaldeyrisskapandi aðilinn í landinu. Á ekki að taka tillit til ferðaþjónustunnar í landinu?